Vangaveltur ósmekklegar á þessari stundu

Össur Skarphéðinsson á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Össur Skarphéðinsson á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta eru sögu­leg og stór­póli­tísk tíðindi, þótt þau hafi kannski ekki komið mér al­gjör­lega að óvör­um,“ seg­ir Össur Skarp­héðins­son ut­an­rík­is­ráðherra um þá til­kynn­ingu Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að hún muni hætta í stjórn­mál­um að kjör­tíma­bil­inu loknu.

Össur seg­ir að það hafi þurft sér­stak­an stjórn­mála­mann til að leiða rík­is­stjórn árið 2009. Stjórn­mála­mann með óflekkað póli­tískt mann­orð sem eng­inn setti spurn­ingu við. Hann seg­ist þess full­viss að Jó­hanna muni í kjöl­far síns fer­il hljóta mjög burðugan sess í Íslands­sög­unni. „Ekki bara vegna þess að hún verður for­sæt­is­ráðherra fyrst kvenna, og ekki held­ur bara vegna þess að allt bend­ir til þess að hún verði í for­ystu fyrstu vinstri­stjórn­ar­inn­ar sem sit­ur heilt kjör­tíma­bil. Ég held að henn­ar verði fyrst og fremst minnst fyr­ir það að hún var for­sæt­is­ráðherra rík­is­stjórn­ar sem leiddi Ísland út úr krepp­unni.“

Efna­hags­legt krafta­verk á Íslandi

Sjálf­ur er Össur nú stadd­ur á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna í New York. „Það fyrsta sem er á vör­um sér­hvers ut­an­rík­is­ráðherra sem ég hitti, og ég á fundi með þeim mörg­um þessa dag­ana, eru spurn­ing­ar um það sem þeir kalla efna­hags­legt krafta­verk á Íslandi. Þannig að hvað sem líður slags­mál­um dags­ins og ang­ist and­stæðing­anna, sem oft brýst út með sér­kenni­leg­um hætti gagn­vart henni, þá geta þeir aldrei frá henni tekið að það var und­ir henn­ar for­ystu sem Ísland náði sér á strik. Það er henn­ar stóra af­rek,“ seg­ir Össur.

Hvað varðar kom­andi for­mannsslag í Sam­fylk­ing­unni seg­ist Össur ekki geta sagt til um hvort hann verði harður, en þar verði marg­ir ef­laust til kallaðir. Sjálf­ur stend­ur hann við fyrri orð sín um að bjóða sig ekki fram. Kom­inn sé tími á kyn­slóðaskipti í flokkn­um. 

„Ég hef margoft sagt að sá kafli í lífi mínu er bú­inn. Ég var stolt­ur af því á sín­um tíma að leiða Sam­fylk­ing­una í 32% bæði í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um og þing­kosn­ing­um, en það end­ur­tek­ur eng­inn sög­una. Það væri stíl­brot og ég hef hvorki áhuga né vilja til þess.“

Og Össur vill ekki svara því hvern hann sjái sjálf­ur fyr­ir sér sem næsta formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. „Mér finnst það ósmekk­legt á þess­um degi, þegar Jó­hanna kynn­ir ákvörðun sína, að menn séu með vanga­velt­ur um það hvort held­ur er fyr­ir sína hönd eða ein­hverra annarra.“

Össur og Jóhanna á Alþingi.
Össur og Jó­hanna á Alþingi. mbl.is/Ó​mar Óskars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert