„Ég bíð eftir að Steingrímur J. sendi VG félögum sambærilegt bréf! Þörf er á kynslóðaskiptum í íslenskri pólitík,“ segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður og fyrrverandi þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í tilefni af tilkynningu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í dag um að hún ætli ekki að gefa kost á sér áfram sem formaður Samfylkingarinnar og hætta í stjórnmálum í þingkosningunum sem fram fara næsta vor.
Lilja segir nóg að nefna Icesave-málið og skuldavanda heimilanna en bæði Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hafi brugðist þjóðinni í þeim málum.
„Verra er að þau komust upp með að refsa og einangra þá sem vildu gæta hagsmuna almennings í Icesave-málinu og koma í veg fyrir að skuldsett heimili í vanda neyddust til að taka rándýr yfirdráttarlán til að ná endum saman,“ segir hún á Facebook-síðu sinni.