Áform um fjárfestingar á á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, ef af þeim yrði, eru gríðarlega mikilvæg fyrir Norðausturland og myndu skapa einstakt tækifæri til að byggja upp samfélagið og innviði svæðisins.
Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Húsavíkurstofu. Ályktunin er send Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Oddnýju G. Harðardóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ögmundi Jónasson innanríkisráðherra.
„Undanfarna mánuði hefur verið unnið að mjög mikilvægu verkefni sem snertir alla íbúa Norðausturlands. 7 sveitarfélög hafa tekið sig saman um að kaupa u.þ.b. 22. þúsund hektara landsvæði Grímsstaða á Fjöllum af einkaaðilum. Breyta á nær öllu svæðinu í fólkvang, sem felur í sér umgengisrétt almennings og aukna náttúruvernd. Þar að auki stendur til að leigja lítinn hluta svæðisins (u.þ.b. 1%) til íslensks félags í eigu erlends aðila sem hyggst reisa hótel á svæðinu og stunda þar ferðaþjónustu.
Verði þetta verkefni að veruleika mun það hafa gríðarlega jákvæð áhrif í för með sér á Norðausturlandi og Íslandi öllu. Ef að líkum lætur munu tugir milljarða koma inn í íslenskt hagkerfi og örva hagvöxt. Hundruð starfa munu skapast á framkvæmdartíma, og þar á eftir. Ferðamönnum mun fjölga á svæðinu, sem aftur veldur aukningu afleiddra starfa. Verkefnið styrkir landsbyggðina, og skilyrði til búsetu þar, og er til þess fallið að hamla gegn landsbyggðarflótta. Þá verða vatnsréttindi í Jökulsá á Fjöllum sem og aðrar auðlindir í samfélagslegri eigu. Að lokum myndi þetta verkefni, verði það að veruleika, senda skýr skilaboð um að erlendir fjárfestar séu velkomnar hér á landi,“ segir í ályktun stjórnar Húsavíkurstofu.
Skorað er á þá ráðherranefnd sem nú fjallar um málið að sjá til þess að þessu verkefni verði ýtt úr vör.