ASÍ ítrekar að skattar hafi hækkað

GYLFI Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
GYLFI Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Rax / Ragnar Axelsson

„Ég ítreka líkt og kom fram í viðtali við mig í Morgunblaðinu í gær - og það er afstaða okkar hjá ASÍ - að skattbyrðin hefur vissulega aukist. Skattar hafa hækkað, enda kom það fram í viðtalinu. Það er alveg ljóst að með breytingum á skattkerfinu hefur þeim sem eru fyrir neðan meðaltekjur verið hlíft en þeir sem eru fyrir ofan meðaltekjur borga meiri skatta,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Viðtalið sem Gylfi gerir athugasemd við birtist á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag.

Gylfi telur fyrirsögnina, ASÍ og SA ósammála um skattinn, vera villandi sem og undirfyrirsögnina ASÍ telur tekjuskatt hafa lækkað síðan 2007.

Fram kemur í umræddri grein að Samtök atvinnulífsins telji tekjuskatt á alla tekjuhópa hafa hækkað síðan 2007. Forsaga málsins er sú niðurstaða úttektar sem starfsfólk Alþingis og Ríkisskattstjóra vann fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að tekjuskattar á alla tekjuhópa hafi hækkað síðan 2007.

Orðrétt sagði Gylfi í viðtalinu í Morgunblaðinu í gær: „Alþýðusamband Íslands lagði mat á áhrif lagasetningar á Alþingi á greidda skatta. Niðurstaðan var önnur en sú sem Bjarni Benediktsson kynnti. Það hefur sýnt sig að upptaka lægra skattþrepsins og sú ákvörðun að breikka bilið á milli skattleysismarka og lægra þrepsins hefur dregið úr skattbyrði lágtekjuhópa og fólks með meðaltekjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert