Föðurnum dæmt fullt forræði

Hjördís, Ragnheiður og dæturnar.
Hjördís, Ragnheiður og dæturnar. Ljósmynd/Facebook

Íslensk kona sem stendur í forræðisdeilu í Danmörku tapaði í dag máli sínu fyrir dönskum barnsföður sínum. Föðurnum var dæmt fullt forræði yfir þremur dætrum þeirra. Systir hennar segir baráttuna líka því að vera við dönsku þjóðina alla en ekki aðeins föðurinn.

Málið vakti mikla athygli hér á landi þegar dæturnar þrjár voru teknar af konunni, Hjördísi Svan Aðalheiðardóttur, með lögregluvaldi og færðar föðurnum í hendur. Var það vegna forræðismáls sem rekið var í Danmörku.

Nú er komin niðurstaða í það mál og föðurnum dæmt fullt forræði. Hjördís fær tvær vikur til að áfrýja dómnum til æðri dómstóls og á meðan er forsjáin enn sameiginleg. „Við höfum ekki séð dóminn því hann er ekki tilbúinn og við fáum hann ekki fyrr en í næstu viku,“ segir Ragnheiður Rafnsdóttir, systir Hjördísar. „Þetta er nefnilega þannig að það er kominn tími til að rannsaka þessi mál í Danmörku. Þeir dæma alltaf Dananum í vil, sama hvort hann er eiturlyfjaneytandi, ofbeldismaður eða gott foreldri.“

Hún segir að fjölskyldan hafi fylgst með öðrum málum og niðurstaðan virðist alltaf vera sú sama. „Ef það eru Dani og útlendingur þá vinnur Daninn alltaf, sama hvort það er karlmaður eða kvenmaður. Þetta er eins og að berjast á móti heilli þjóð. Þó svo við séum með afgerandi sönnunargögn og börnin tjái sig um það hvað þau vilja, það er ekki hlustað á það. Þetta er ekki fyrir venjulegt fólk að standa í.“

Ragnheiður segir mótlætið hafa verið mikið og erfitt sé að vera sífellt sparkaður niður. Hins vegar geti fjölskyldan ekki hætt að berjast. „Við verðum að halda áfram til að bjarga börnunum og það gerum við. Og höfum þá von að réttlætið muni ná fram að ganga. Við erum bara venjuleg fjölskylda sem lendir í þessu.“

Hún segir baráttuna við kerfið, bæði hér heima og í Danmörku, hafa tekið sinn toll. „Það er víða pottur brotinn í þeim úrræðum sem eiga að vera til staðar.“

Á stuðningssíðu Hjördísar á samskiptavefnum Facebook eru veittar kærar þakkir fyrir stuðninginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert