Minna af makríl en meira af kolmunna

Makríll.
Makríll.

Alþjóðahafrannsóknarráðið, ICES, leggur til 15,2% samdrátt í veiðum á makríl árið 2013, umtalsverða aukningu í veiðum á kolmuna og nokkurn samdrátt í veiðum á norsk-íslenskri síld. Þetta kemur fram í ráðgjöf stofnunarinnar sem birt var í dag og fjallað er um á vef LÍÚ. Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um
skiptingu aflamarks.

Nýlokið er fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem fjallað var um ástand nokkurra uppsjávarfiskstofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um nýtingu þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun. 

Heimilt að veiða 90 þúsund tonn af vorgotssíld

Árgangar norsk-íslensku vorgotssíldarinnar frá 1998, 1999 og 2002-2004 voru allir stórir, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003 og náði hámarki árið 2009, um 9 milljón tonn.

Rúm 52% af hrygningarstofninum árið 2012 tilheyra árgöngunum frá 2002 og 2004, en um 11% er af 2003-árganginum. Árgangar yngri en 2004 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu halda áfram að minnka á næstu árum, segir í tilkynningu frá Hafró.

Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2012 rúmar 6 milljónir tonna, sem er tæpri milljón tonnum lægra en matið í fyrra. Aflamark árið 2013 verður 619 þúsund tonn, samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum.

Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn árið 2014 verði rúmar 4,3 milljónir tonna ef afli verður samkvæmt aflareglu. Þar sem árgangar yngri en 2004 eru metnir litlir mun hrygningarstofninn minnka enn frekar á næstu árum og verður kominn undir varúðarmörk (Bpa=5 milljón tonn) árið 2014.

Hlutdeild Íslendinga í aflanum árið 2013 verður um 90 þús. tonn (14,51%). Til samanburðar var aflamarkið 833 þúsund tonn árið 2012 og hlutdeild Íslands 120 þúsund tonn.

Heimilt að veiða 113 þúsund tonn af kolmunna

Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í um sjö milljónir tonna á árunum 2003 og 2004, en fór minnkandi síðan til ársins 2010 vegna lélegrar nýliðunar. Árgangar 2005 til 2008 eru allir metnir nálægt sögulegu lágmarki.

Mjög lítill afli árið 2011 og svo góð nýliðun síðustu tvö árin hefur orðið til þess að snúa þessari þróun hrygningarstofns við og er hann metinn 3,8 milljónir tonn árið 2012, þ.e. einni milljón tonnum stærri en árið 2011.

Vísbendingar, bæði úr leiðöngrum og afla, eru um að árgangar 2010 og 2011 séu stórir, en hversu stórir er ekki enn hægt að segja til um. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 5,7 milljónir tonna árið 2014 ef afli verður samkvæmt aflareglu.

Aflamark fyrir 2013 verður 643 þúsund tonn samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum. Þar af er hlutdeild Íslendinga um 113 þús. tonn (17,6%). Til samanburðar þá var aflamark fyrir árið 2012 um 391 þúsund tonn og hlutdeild Íslendinga 69 þúsund tonn, samkvæmt tilkynningu frá Hafró.

Fá að veiða 150 þúsund tonn af makríl

Stærð hrygningarstofns makríls var metin um 2,2 milljónir tonna á árunum 1980-2001, en minnkaði síðan í um um 1,7 milljónir tonna á árunum 2002-2004. Frá 2004 fór stofninn vaxandi og var um 3 milljónir tonna á árunum 2009-2011.

Hrygningarstofninn er nú metinn vera um 2,7 milljónir tonna árið 2012. Stærð hrygningarstofns makríls er metinn út frá aflagögnum og magni makríleggja. Magn og útbreiðsla eggjanna er metin í fjölþjóðlegum leiðöngrum á þriggja ára fresti. Síðasti leiðangurinn var farinn 2010 og tóku Íslendingar þá þátt í honum í fyrsta sinn. Næsti leiðangur fer fram árið 2013.

Árgangarnir frá 2002, 2005 og 2006 eru allir metnir mjög stórir. Árgangarnir frá 2007 og 2008 eru taldir vera nálægt meðaltali. Ekki liggja enn fyrir nægjanlegar upplýsingar þannig að hægt sé að meta stærð árganganna frá 2009-2011. Ef afli verður samkvæmt aflareglu árið 2013 þá er gert ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 2,6 milljónir tonna árið 2014.

Í júlí-ágúst 2012 fór fram í fjórða sinn sameiginlegur rannsóknarleiðangur þriggja þjóða (Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar) í Norðaustur-Atlantshafi þar sem m.a. útbreiðsla og magn makríls voru kortlögð á meðan á ætisgöngum makríls um norðurhöf stóð. Enn sem komið er er tímaröðin of stutt til þess að hægt sé að nota vísitölur leiðangranna til samstillingar í stofnmati makríls.

Samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum, er aflamark fyrir árið 2013 frá 497-542 þúsund tonn. Til samanburðar var aflamark fyrir árið 2012 586-639 þúsund tonn og áætlaður heildarafli um 930 þús. tonn. Þar af er afli Íslendinga áætlaður um 150 þús. tonn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert