Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg mótmæla áformum borgaryfirvalda um flutning miðstöðvar strætisvagna frá Hlemmi að Umferðarmiðstöðinni í Vatnsmýri. Verði af flutningi aðalskiptistöðvarinnar mun enn draga úr vægi miðborgarinnar. Vart er til sú borg í Evrópu þar sem aðalmiðstöð almenningssamgangna er ekki staðsett í miðborginni, en jafnan fylgir slíkum miðstöðvum mikið mannlíf, verslun og þjónusta, segir í ályktun frá samtökunum.
„Samtökin vilja varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki væri ráðlegra að flytja að minnsta kosti hluta aðalskiptistöðvarinnar aftur í Kvosina, til dæmis nærri Lækjartorgi og byggja þar í framtíðinni upp nýja skiptistöð. Þar mætti jafnvel líka hugsa sér að koma fyrir miðstöð almenningssamgangna út á land, en BSÍ og aðalskiptistöð SVR voru áður staðsett í hjarta borgarinnar, á Lækjartorgi og við Kalkofnsveg. Nægt landrými er nú milli Lækjartorgs og Hörpu og mætti vel koma fyrir rúmgóðri samgöngumiðstöð á þeim slóðum.
Slík samgöngumiðstöð í miðborginni gæti skapað möguleika á að verslun fengi á nýjan leik þrifist í Kvosinni og þannig verða til að styrkja og efla mannlíf, verslun og þjónustu í miðborginni sem á nú mjög undir högg að sækja,“ segir í ályktuninni.