Ólafur Ólafsson, varaformaður Dómarafélags Íslands, er ekki sammála því sem fram kom í frétt mbl.is nýverið um að tekið sé vægt á ofbeldi gegn lögreglumönnum. Hann segir eðlilegt að menn hafi sínar skoðanir á þyngd dóma. Hann segir hins vegar að í dómum sem um þetta málefni fjalla komi skýrt fram að litið sé svo á að brotin séu alvarleg, en bætir við: „Eftir því sem ég hef kynnt mér er þyngd dóma í þessum málaflokki á svipuðu róli og annars staðar á Norðurlöndunum.“
Bendir hann í því samhengi á almenna umfjöllun Ragnheiðar Bragadóttur lagaprófessors og Helga Gunnlaugssonar, prófessors og afbrotafræðings, um refsingar. Þá sé vert að hafa í huga að í rannsóknum fræðimannanna komi m.a. fram að vel yfir 90% manna sem séu dæmdir til skilorðsbundinna refsinga standist skilorðið.
Ólafur segir þörf á að almennt sé fjallað um þessi mál af yfirvegun. Hann ítrekar að háttsemi af framangreindum toga séu alltaf álitin alvarleg og sé það í samræmi við það lagaákvæði sem Alþingi hafi sett, þ.e. 106. gr. almennra hegningarlaga; brot gegn valdstjórninni. Hann segir að refsiramminn sé nú frá þrjátíu daga og upp í átta ára fangelsi, en bendir á að jafnframt segi í lagaákvæðinu að beita megi sektum ef brot teljist smávægileg.
„Það vekur hins vegar athygli að dómarar hafa ekki heimild til að dæma menn í svokallaða samfélagsþjónustu líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og öðrum í nágrannaríkjum okkar. Hafa slík úrræði verið talin heppileg t.d. þegar í hlut eiga ungmenni. Alþingi hefur hins vegar ítrekað hafnað því að hafa slíkar heimildir í lögum fyrir dómara.“
Ólafur segir að í þeim málum sem Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, nefni sem dæmi í fyrrgreindri frétt mbl.is sé ævinlega vikið að alvöru háttseminnar. Það fari því ekki á milli mála að ofbeldi gegn lögreglumönnum sé talið alvarlegt atvik. „Hins vegar ber dómurum þegar þeir ákveða refsingu í einstökum málum að horfa einnig til annarra atriða sem ýmist séu til refsihækkunar eða refsimildunar. Það eru t.d. atriði eins og hversu mikið tjón hafi hlotist af háttseminni, hver sakaferill viðkomandi aðila er, aldur verknaðarmanns og hegðun hans fyrir og eftir brot. Þetta eru allt atriði sem dómurum er lögskylt að líta til samkvæmt 70. og 74. grein hegningarlaganna.“
Ólafur segir að í málunum þremur um ofbeldi gegn lögreglumönnum sem Snorri nefni hafi háttað þannig til að ýmis atriði hafi leitt til refsilækkunar. „ Þannig hafi í nýlegum dómi Héraðsdóms Austurlands, þar sem 24 ára gamall karlmaður hafi verið dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi, verið litið til þess m.a. að sakaferill hans hafi ekki verið slíkur að hann hefði áhrif á refsinguna. Þá hafi viðkomandi skýlaust játað brot sitt og lýst yfir iðrun, en að auki hafi engir áverkar hlotist af háttseminni.“
Í máli sem vísað sé til og dæmt hafi verið í Héraðsdómi Reykjaness, en þar hafi dómurinn hljóðað upp á fjögurra mánaða fangelsi, hafi m.a. verið litið til þess að um hegningarauka var að ræða við eldri dóm. Einnig virðist þar hafa verið horft til þess að töluverður dráttur hafði orðið á rannsókn lögreglu eða yfir eitt ár og að um 17 ára gamalt barn var að ræða. Þá nefnir Ólafur að í þriðja málinu sem vikið hafi verið að í fréttinni hafi viðkomandi verið sakfelldur fyrir að hafa skallað lögreglumann. Hafi dómurinn hljóðað upp á fimm mánaða fangelsi, en þar af hafi þrír mánuðir verið skilorðsbundnir. „Til grundvallar skilorðsbindingu að hluta virðist m.a. hafa legið að viðkomandi játaði brot sitt skýlaust, en einnig það að hann var með svokallað Asperger-heilkenni og var undir læknishendi.“
Ólafur bendir á að þegar þessi þrjú mál séu borin saman við fjórða málið sem vikið sé að í fréttinni, en þar hafi karlmaður verið dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hrækja á skikkju og líkama dómara og kalla óviðurkvæmileg orð að henni, verði m.a. að horfa til fyrrgreindra atriða. Verði þannig ráðið að í þessum síðast nefnda dóm hafi m.a. verið horft til þess við ákvörðun refsingar að um var að ræða mann á fertugsaldri sem ítrekað hafði verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, þar af eitt mjög alvarlegt. Þá hafði viðkomandi áður gerst sekur um brot gegn 106. gr. hegningarlaganna, en sé um slíkt að ræða sé heimilt að þyngja refsingu um allt að helming.
„Samkvæmt framansögðu ber dómurum að líta til ýmissa atriða við ákvörðun refsinga. Og eins og ég segi, það er alltaf í þessum dómum vísað til alvarleika brotanna, og ef til vill endurspeglast það m.a. í því að málsmeðferðartíminn hjá dómstólum í þessum málaflokki er mjög stuttur eða einn til þrír mánuðir.“
Ólafur segir að umfjöllun fjölmiðla um dómsmál sé í flestum tilvikum til fyrirmyndar. „Þó hefur komið fyrir að misskilnings hafi gætt og oft er mikilvægum atriðum sleppt. Hefur t.d. ekki alltaf verið fjallað um þau atriði sem miklu skipta, t.d. um þyngd refsinga, og stundum hefur í engu verið fjallað um rökstuðning fyrir skilorðsbindingu að fullu eða að hluta, en það eru auðvitað atriði sem t.d. skipaðir verjendur hafa rökstutt og lagt áherslu á.“ Ólafur vill hvetja fólk til þess að kynna sér þessi mál enn frekar, en það er hægt á heimasíðunni domstolar.is.