„Mér finnst þetta vera slæm ákvörðun og röng,“ segir Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks um þá ákvörðun meirihluta fjárlaganefndar Alþingis að senda frumvarp til fjáraukalaga ekki til umsagnar Ríkisendurskoðunar.
„Augljóslega eru uppi vandamál varðandi Ríkisendurskoðun, en ákvörðun einstakrar nefndar þingsins að senda ekki mál til Ríkisendurskoðanda stenst auðvitað enga skoðun,“ segir Illugi.
„Aðalatriðið er að leiða til lykta það mál sem uppi. Ótækt er að nálgast það með þeim hætti sem meirihluti fjárlaganefndar hefur gert og senda ekki frumvörp til skoðunar. Þingið þarf að ræða þessi frumvörp og mikilvægur hluti þeirrar umræðu er einmitt álit Ríkisendurskoðanda,“ segir Illugi. „Eins og gefur að skilja fylgja því erfiðleikar þegar þingið fær ekki í hendur þau gögn sem þarf til umræðunnar, og skýrsla endurskoðunar er án nokkurs vafa meðal þeirra gagna,“ bætir hann við.
Upphlaup og stráksskapur
Aðspurður hvort hann taki undir þau orð Sigmundar Ernis, þingmanns Samfylkingarinnar að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað milli fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar „Þetta snýr að þinginu sjálfu og að mínu mati er það ekki einstakrar nefndar að gera þetta með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Ef um er að ræða trúnaðarbrest milli þings og stofnunarinnar á að taka á því með formföstum hætti. Meirihluti nefndar á ekki að takast á við mál þannig að hann raunverulega hætti samskiptum við ríkisendurskoðanda, það segir sér sjálft,“ segir Illugi.
„Ekki er með nokkrum hætti hægt að réttlæta að framgöngu af þessu tagi, samskipti Alþingis og Ríkisendurskoðunar eru mjög mikilvæg og ekki á að auka á þann vanda sem nú þegar er til staðar með svona vinnubrögðum,“ segir Illugi.
„Þetta eru einfaldlega ekki boðleg vinnubrögð. Upphlaup og stráksskapur af þessum toga eiga ekki við í svona alvarlegum málum,“ segir Illugi.
Tengd frétt: Ákvörðunin sögð vera barnaleg