Finnst óþarfi að styrkja Ísland

Styrkur til ferðaþjónustu nærri Eyjafjallajökli er verkefni sem tekið er …
Styrkur til ferðaþjónustu nærri Eyjafjallajökli er verkefni sem tekið er sem dæmi í grein Telegraph. mbl.is/Rax

Alan Duncan, þróunarmálaráðherra Bretlands, sakar Evrópusambandið um að sóa peningum sem eigi að fara til þróunarhjálpar í verkefni sem hafi ekkert með fátækt að gera. Hann tekur fjárveitingu til að örva ferðaþjónustu á Suðurlandi sem dæmi um þetta, en verkefnið kom til í kjölfar goss í Eyjafjallajökli.

Duncan segir að breska þróunarsamvinnustofnunin sé neydd til að senda fjármuni til Evrópusambandsins þar sem þeim sé ráðstafað í verkefni sem breskir skattgreiðendur hafi enga möguleika á að hafa áhrif á.

Breska blaði Telegraph fjallar um þetta mál í helgarblaði sínu í dag. Í fréttinni segir að þessi gagnrýni Duncans muni valda titringi innan Íhaldsflokksins vegna þess að hann sé að vekja máls á tveimur málum sem þingmenn flokksins séu hvað mest ósáttir við í stefnu David Cameron forsætisráðherra, þ.e. Evrópumál og þróunarhjálp.

Telegraph hefur eftir embættismönnum í Brussel að það sé ekki rétt að ESB þvingi Breta til að taka þátt í verkefnum sem þeir vilji ekki styðja. Blaðið hefur hins vegar eftir ónafngreindum þingmanni Íhaldsflokksins að þetta sé „100% lygi“.

Telegrah segir í fréttinni að 1,4 milljarðar punda, sem er um 1/6 af fjármagni Þróunarsamvinnustofnunar Bretlands, fari til verkefna sem Evrópusambandið stýri. Mörg þessara verkefna séu í löndum sem ekki geti talist fátæk.

Telegraph tekur stuðning ESB við ferðaþjónustu á Íslandi sem dæmi þróunarverkefni sem Evrópusambandið hafi stutt. ESB hafi sett fjármuni í það að efla ferðaþjónustu á Suðurlandi í kjölfar Eyjafjallagossins árið 2010, en gosið olli mikilli röskun á flugumferð í Evrópu og víðar.

Blaðið hefur eftir Steingerði Hreinsdóttur, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, að þessi styrkur hafi verið í boði og hún sjái ekki hvers vegna við ættum ekki að þiggja hjálp við að aðstoða svæði sem hafi átt í erfiðleikum.

Alan Duncan
Alan Duncan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka