Flest bendir til að beltagrafan sem sökk í Jökulsá í Fljótsdal í gær hafi sloppið óskemmd. Tvær stórar gröfur voru í gær notaðar við að draga hana í land.
Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum var kölluð út til að sækja bílstjóra gröfunnar. Maður sem var á bakkanum kallaði eftir aðstoð. Sveitin fór á staðinn með bát og gekk fljótt og vel að sækja manninn. Ekkert amaði að honum þegar að var komið.
Grafan er 24 tonn og þurfti að nota stórvirkar vinnuvélar til að ná gröfunni upp úr ánni. Guðný Margrét Hjaltadóttir, skrifstofustjóri hjá ÞS verktökum, sem á gröfuna, segir að vel hafi gegnið að ná gröfunni upp. Óttast hafi verið að mótor hennar væri ónýtur, en hann sé sem betur fer í lag. Hins vegar þurfi að skipta um allar síur og olíur á vélinni.
Ástæðan fyrir óhappinu er sú að gröfumaðurinn misreiknaði sig og fór ekki rétta leið yfir ána. Grynningar eru skammt frá staðnum, en gröfumaðurinn hitti ekki á þær.