Í morgun hófst almennur félagsfundur hjá Framsóknarfélagi Reykjavíkur og er fundurinn haldinn í Framsóknarhúsinu. Á meðal þeirra sem sækja fundinn er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir.
„Hér er mjög mikill samhugur ríkjandi og jákvæðni. Ég hef nú formlega lýst yfir framboði mínu,“ segir Vigdís Hauksdóttir í samtali við mbl.is en nú stendur yfir stutt hlé.
Að hléi loknu hefjast svo lokaðar umræður þar sem farið verður yfir framboðsmál.
Með framboðsyfirlýsingu sinni sækist Vigdís eftir fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og segist hún finna fyrir miklum meðbyr með framboði sínu.
Meðal þess sem rætt var í morgun var stjórnmálaástandið í landinu, framtíðarsýn og helstu stefnumál flokksins en Vigdís segir flokkinn áfram ætla að leggja áherslu á atvinnumál, heimilin í landinu og auðlindamál.
„Þetta er því í raun áframhaldandi keyrsla á okkar góðu stefnuskrá. Svo leggja Reykvíkingar hér á þessum fundi mikla áherslu á að við beitum okkur í samgöngumálum innan borgarinnar,“ segir Vigdís.
Vigdís Hauksdóttir hefur sent fjölmiðlum tilkynningu vegna framboðs síns en þar segir:
„Á fjölmennum fundi Framsóknarfélags Reykjavíkur sem haldinn var fyrr í dag, óskaði ég eftir því við félaga mína í Framsóknarflokknum í Reykjavík, að veita mér brautargegni á ný til að leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður í komandi alþingiskosningum. Ég kem til með að vinna af heiðarleika og festu í þágu lands og þjóðar, hér eftir sem hingað til, og standa vörð um grunngildi samfélagsins.“