Lýsti yfir framboði á fundinum

Vigdís Hauksdóttir þingmaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður á félagsfundinum …
Vigdís Hauksdóttir þingmaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður á félagsfundinum í morgun. Mbl.is/Golli

Í morg­un hófst al­menn­ur fé­lags­fund­ur hjá Fram­sókn­ar­fé­lagi Reykja­vík­ur og er fund­ur­inn hald­inn í Fram­sókn­ar­hús­inu. Á meðal þeirra sem sækja fund­inn er Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, og þingmaður­inn Vig­dís Hauks­dótt­ir.

„Hér er mjög mik­ill sam­hug­ur ríkj­andi og já­kvæðni. Ég hef nú form­lega lýst yfir fram­boði mínu,“ seg­ir Vig­dís Hauks­dótt­ir í sam­tali við mbl.is en nú stend­ur yfir stutt hlé.

Að hléi loknu hefjast svo lokaðar umræður þar sem farið verður yfir fram­boðsmál.

Með fram­boðsyf­ir­lýs­ingu sinni sæk­ist Vig­dís eft­ir fyrsta sæti í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður og seg­ist hún finna fyr­ir mikl­um meðbyr með fram­boði sínu.

Meðal þess sem rætt var í morg­un var stjórn­mála­ástandið í land­inu, framtíðar­sýn og helstu stefnu­mál flokks­ins en Vig­dís seg­ir flokk­inn áfram ætla að leggja áherslu á at­vinnu­mál, heim­il­in í land­inu og auðlinda­mál.

„Þetta er því í raun áfram­hald­andi keyrsla á okk­ar góðu stefnu­skrá. Svo leggja Reyk­vík­ing­ar hér á þess­um fundi mikla áherslu á að við beit­um okk­ur í sam­göngu­mál­um inn­an borg­ar­inn­ar,“ seg­ir Vig­dís.

Upp­fært klukk­an 15.16

Vig­dís Hauks­dótt­ir hef­ur sent fjöl­miðlum til­kynn­ingu vegna fram­boðs síns en þar seg­ir:

„Á fjöl­menn­um fundi Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur sem hald­inn var fyrr í dag, óskaði ég eft­ir því við fé­laga mína í Fram­sókn­ar­flokkn­um í Reykja­vík, að veita mér braut­ar­gegni á ný til að leiða flokk­inn í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður í kom­andi alþing­is­kosn­ing­um. Ég kem til með að vinna af heiðarleika og festu í þágu lands og þjóðar, hér eft­ir sem hingað til, og standa vörð um grunn­gildi sam­fé­lags­ins.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert