Verði bráðabirgðaákvæði um rétt til greiðslu atvinnuleysistryggingabóta í fjögur ár ekki framlengt um áramótin, gæti fjöldi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda eftir að hafa misst rétt til atvinnuleysisbóta orðið um 3.600 í lok næsta árs og meira en tvöfaldast á einu ári.
Áætlaður kostnaður sveitarfélaganna vegna einstaklinga sem misst hafa bótarétt eftir langtímaatvinnuleysi og þurfa á fjárhagsaðstoð að halda gæti þá verið kominn í 5,5, milljarða kr. í lok næsta árs ef gengið er út frá því að fjárhagsaðstoð til hvers einstaklings sé að meðaltali 150 þús. kr. á mánuði.
Þessar upplýsingar komu fram í erindi Gyðu Hjartardóttur, félagsþjónustufulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær.
Fram kom í erindi Gyðu að ef bráðabirgðaákvæðið yrði ekki framlengt hefðu 1.600 manns fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta um næstu áramót. Því til viðbótar munu 120-170 manns fullnýta bótarétt sinn um hver mánaðamót á næsta ári.