Laufskálarétt í Skagafirði, stærsta stóðrétt landsins, fór fram í góðu veðri í dag. Vel gekk að rétta og koma stóðinu til sín heima.
Óvíða á landinu eru stærri hrossabú en í Skagafirði. Það eru ekki bara hestamenn sem líta á það sem ómissandi hluta haustsins að skella sér í Laufskálarétt. Talið er að allt að þrjú þúsund gestir hafi fylgst með stóðinu og réttarstörfum í dag.
Fjörið er ekki búið þó búið sé að rétta því sjálft Laufskálaréttarballið fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum í kvöld. Þar mun hljómsveitin Von halda uppi stuðinu, ásamt landsliði söngvara; Siggu Beinteins, Ingó veðurguði, Jógvani og Vigni Snæ.