Flensborgardagurinn verður haldinn hátíðlegur næstkomandi mánudag þegar skólinn fagnar 130 ára afmæli sínu. Á sama tíma verður geðræktarárið sett en það er þriðja þema verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli. Hin tvö eru hreyfing og næring.
Af þessu tilefni verður allt venjulegt skólastarf lagt niður þennan dag en starfsmenn skólans hafa að undanförnu lagt mikla vinnu í að setja upp fjölbreyttar og skemmtilegar skreytingar.
Mest áberandi er vafalaust geðræktarskotið þar sem m.a. má finna listaverk eftir nemendur skólans og geðræktarveggur sem skartar Geðorðunum tíu.
Ýmislegt skemmtilegt verður í boði þennan dag, m.a. munu nemendur og kennarar etja kappi í ræðumennsku og blöðkuknattspyrnu svo eitthvað sé nefnt.
Líkt og í öllum betri afmælisveislum verður boðið upp á afmælistertu og þá mun einnig tónlistarmaðurinn Jón Jónsson stíga á svið.