Dæmdar fyrir stórfelldan þjófnað

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mæðgur í fimmtán mánaða og fjögurra mánaða fangelsi fyrir stórfelldan þjófnað úr verslunum. Tólf mánuðir af fyrrnefnda dómnum eru bundnir skilorði og er sá síðari bundinn skilorði að öllu leyti. Bótakröfum upp á milljónir króna var vísað frá.

Mæðgurnar voru ákærðar fyrir stórfelldan búðarþjófnað á árunum 2010 og 2011 og nam verðmæti varningsins upphaflega um 14 milljónir króna, en bótakröfur voru lækkaðar niður í tæpar tíu milljónir undir rekstri málsins, auk þess sem fallið var frá einum ákærulið.

Konurnar játuðu skýlaust brot sín. Við ákvörðun refsingar leit dómurinn til þess að brotin væru stórfelld og brotaviljinn einbeittur.

Mæðgurnar voru staðnar að verki við þjófnað í Smáralind hinn 20. október í fyrra. Reyndust þær þá hafa á sér þýfi að verðmæti rúmlega 200 þúsund króna. Mæðgurnar voru sérlega útsmognar, en þær geymdu þýfið í sérstaklega útbúnum poka, sem var fóðraður að innan með álpappír til að koma í veg fyrir að þjófavarnakerfi verslana næmu innihald hans. Þessar aðferðir sem mæðgurnar beittu gáfu lögreglu strax vísbendingar um að um skipulagða glæpastarfsemi væri að ræða.

Þegar leitað var í íbúðum þeirra kom í ljós gríðarlegt magn þýfis, í annarri fyllti það um fjörutíu svarta plastpoka. Þá fannst í íbúð móðurinnar tæp hálf milljón króna í reiðufé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert