Flaut eins og korktappi í lóninu

Bílinn rekur út úr Jökulsárlóni.
Bílinn rekur út úr Jökulsárlóni. Ljósmynd/Anne Stoneburner

Fólksbifreið sem hafnaði í Jökulsárlóni í gær er enn ófundin og að sögn lögreglu er óvíst hvort og þá hvenær hún komist aftur undir dagsins ljós. Leiðsögumaður sem náði ljósmynd af bílnum í lóninu segir að hann hafi flotið eins og korktappi í nokkrar mínútur áður en hann sökk.

Leiðsögumaðurinn Anne Stoneburner var með hóp ferðamanna á svæðinu þegar atvikið átti sér stað á þriðja tímanum í gær. Hún segist ekki hafa orðið vitni að því þegar bifreiðin rann í lónið en hún náði ljósmynd af ökutækinu skömmu áður en það hvarf sjónum manna við mynni lónsins.

Anne segist hafa rætt við erlend hjón sem sáu bifreiðina renna ofan í lónið skammt frá brúnni, en svo virðist sem að bifreiðin hafi hvorki verið í gír né í handbremsu. Að sögn lögreglunnar á Höfn í Hornafirði er um mannleg mistök að ræða. En sem betur fer sakaði engan.

Eins og fram hefur komið var bandarísk kona með bílinn á leigu. Anne segir að konan hafi setið inni í þjónustumiðstöðinni þegar bifreiðin rann rólega af stað ofan í lónið og hún hafi því ekki orðið vitni að óhappinu. Þá segir Anne að farangur konunnar hafi orðið eftir í bílnum en hún hafi aftur á móti verið með vegabréfið og greiðslukort á sér. Að sögn Anne var konan mjög róleg þrátt fyrir að bifreiðin hennar hafi horfið ofan í lónið með allan farangurinn.

Kom upp eins og Titanic

„Hann var fljótandi á vatninu í nokkrar mínútur, kannski í sjö mínútur eða eitthvað svoleiðis. Og svo gekk það mjög hratt þegar hann fylltist af vatni og þá sáust bara loftbólur. Svo kom hann aftur upp eins og Titanic en svo var hann horfinn,“ segir Anne.

Í fyrstu héldu menn að einhver væri inni í bílnum en fljótlega kom í ljós að konan sat róleg á kaffistofunni að sögn Anne.

Lögreglan hefur rætt við sjónarvotta í tengslum við málið. Hún segir að aðstæður til leitar séu mjög erfiðar og ólíklegt verði að teljast að bíllinn finnist á næstunni.

Lögreglu- og björgunarsveitamenn hafa kannað aðstæður og athugað hvort unnt sé að ná bifreiðinni aftur upp á þurrt land. Það hefur engan árangur borið enda bifreiðin ófundin. Hefur lögreglan haft samband við Heilbrigðisstofnun Austurlands og Umhverfisstofnun vegna málsins.

Þá hefur komið fram að menn geti nú aðeins beðið og séð hvort bifreiðin losi olíu í lónið. Gerist það verði gerð tilraun til þess að finna bifreiðina og koma henni aftur upp á land.

Ekkert bólar á bifreiðinni

Bifreið hvarf ofan í Jökulsárlón

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka