Mannauðsmál rædd á morgunverðarfundi

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Í fyrramálið, á öðrum degi sem nýr fjármála- og efnahagsráðherra, ræðir Katrín Júlíusdóttir mannauðsmál ríkisins á fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana sem haldinn er á Grand hótel Reykjavík á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, og Stofnunar stjórnsýslufræða.

Á fundinum verða einnig kynntar nýjar niðurstöður forstöðumannakönnunar 2011 sem skoðar mannauðsmál frá sjónarhorni forstöðumanna ríkisstofnana, en könnunin var gerð í árslok 2011. Rannsóknin tekur m.a.  til þátta eins og skipulags starfsmannamála, mótunar og innihalds starfsmannastefnu, starfslýsinga, aðferða við mat á umsækjendum um starf, upphaf starfs, fyrirkomulag starfsþróunar og aðferðir við mat á frammistöðu starfsmanna. Skoðuð er þróun frá sambærilegri könnun sem framkvæmd var 2007.

Í niðurstöðum nú kemur m.a. fram:

- Laun taka í minna mæli mið af frammistöðu en áður, en um 40% forstöðumanna telja nú að svo sé í samanburði við 60% þeirra í sambærilegri könnun 2007.  Þrátt fyrir þessar niðurstöður hefur frammistaða meiri áhrif á laun hjá ákveðnum stofnanaflokkum en áður.

-um 80% ríkisstofnana hafa skriflega starfsmannastefnu, en í könnun 2007 átti það við um 60% stofnana og um 20% þeirra i sambærilegri könnun sem gerð var 1998.

 Þá verða á fundinum kynnt ný grundvallarviðmið í mannauðsmálum ríkisstofnana og bjargráð sem forstöðumenn geta nýtt sér til að bæta mannauðsmál hjá stofnunum sínum. M.a. verður mannauðshluti ORACLE kerfisins sem hefur verið til umfjöllunar síðustu daga til umræðu, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert