Björgólfur Jóhansson forstjóri Icelandair group segir að nú sé svo komið að nauðsynlegt sé að hefja gjaldtöku að náttúruperlum á Íslandi. Öðrum kosti sé mikil hætta á því að umhverfi nærri náttúruperlunum muni láta á sjá. Fyrir vikið verði upplifunin af því að koma á staðina ekki eins tilkomumikil og hún gæti ellegar orðið.
„Ég held að það sé lykillinn að framtíðinni í ferðamennsku á Íslandi. Við þurfum að passa okkur á umgengni og viðhaldi á þessum stöðum. Við erum að leita að tekjum til að uppfylla þær skyldur og ég held að þetta sér rétta leiðin ef það á að vera hægt að viðhalda þjónustu,“ segir Björgólfur.
Hann segir að það sé nauðsynlegt að innheimta gjald fyrir þjónustu með þessum hætti en ekki seilast í vasa allra skattborgara með öðrum leiðum.
„Það er mun skynsamlegra að taka gjald frá þeim sem eru á staðnum heldur en að gera það óbeint með gistináttagjaldi eða öðru,“ segir Björgólfur.
„Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða staði í almannaeigu eða einkaeigu. Við eigum einfaldlega að taka þetta skref núna. Það er ekki á mörgum stöðum í heiminum sem þú getur gengið að án þess að greiða fyrir. Slíkt skref yrði ferðamannaiðnaðinum til heilla. Ég er sannfærður um það,“ segir Björgólfur.