Katrín Júlíusdóttir segir það góða tilfinningu að taka við fjármála- og efnahagsráðuneytinu. „Það er líka gott að taka aftur til starfa eftir gott fæðingarorlof. Það er heilmikil tilhlökkun í mér að vera að stíga aftur inn í hringiðu stjórnmálanna,“ sagði Katrín að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum.
Hún segir það sérstakt tilhlökkunarefni að taka við fjármálaráðuneytinu. „Ég tek við afar góðu búi en það eru mörg stór mál sem þarf að fylgja eftir og ég hlakka til að takast á við þau.“
Fjárlagafrumvarpið er á meðal þeirra stóru mála sem þarf að fylgja eftir í vetur að sögn Katrínar. Hún segir jafnframt að það þurfi að fara vel yfir gjaldmiðilsmálin og hvernig megi auka fjárfestingar. Þá sé verið að sameina ráðuneyti, fjármálaráðuneyti og efnahagsráðuneyti, og það verði að fylgja því eftir að sú sameining gangi vel.
Spurð hvort hún hyggist bjóða sig fram í forystusveit Samfylkingarinnar í komandi kosningum segir hún: „Ég hef tekið þá ákvörðun að ég ætla að gefa kost á mér í fyrsta sæti listans í Suðvesturkjördæmi. Við skulum orða það þannig að ég tek alltaf einn slag í einu og við sjáum til hvað fólkið mitt í Suðvesturkjördæmi vill gera og förum svo bara yfir það síðar. Ég útiloka ekki neitt. En engu að síður er það ekki á borðinu hjá mér núna að fara í forystu í Samfylkingunni að öðru leyti að því að sækjast eftir þessu fyrsta sæti í kjördæminu.“
Spurð út í gjaldeyrishöftin segir Katín: „Ég er ein af þeim, eins og örugglega flestir, sem vilja hafa sem opnust viðskipti við útlönd. Þannig að gjaldeyrishöftin, þau auðvitað hamla ýmsu. En þau eru samt mikilvægt verkfæri á meðan við erum að vinna hér á innanlandsvanda. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi. Við munum fara vandalega yfir þetta núna á næstunni, með hvaða hætti við sjáum framtíðina fyrir okkur í þessu. Þetta þurfum við að gera líka í samhengi við gjaldmiðilinn, hvernig ætlum við að koma gjaldmiðilsmálum fyrir hér til lengri tíma. Ætlum við að halda áfram að nota íslensku krónuna, og þá hvernig? Eða þá erum við tilbúin til þess að taka skrefið og sækjast eftir því að taka upp annan gjaldmiðil. Þetta eru stóru spurningarnar í íslenskri pólitík í dag.“
Katrín segir Samfylkinguna hafa stefnu í þessu máli og kallar eftir því að aðrir stjórnmálaflokkar kynni sína stefnu varðandi gjaldmiðilsmálin.
Hvað varðar fyrirhugaða skattahækkun á fyrirtæki í ferðaþjónustu segir Katrín að farið verði vandlega yfir málið. „Nú er ég bara að taka við. Ég mun fara núna niður í ráðuneyti og fara vandlega yfir þetta. Fjárlagafrumvarpið er komið til fjárlaganefndar, það er komið til þingsins. Þingið ber núna ábyrgð á því að ljúka því og ég mun fara vandlega yfir þetta mál með þeim,“ segir Katrín og bætir við að hún muni ekki gefa út neinar yfirlýsingar í tengslum við þetta mál að svo stöddu.