Ekki ástæða til að hætta við

Nýi Álftanesvegurinn er umdeildur.
Nýi Álftanesvegurinn er umdeildur.

Bæjarráð Garðabæjar telur ekki ástæðu til að falla frá ákvörðun um framkvæmdir við nýjan Álftanesveg, sem liggja mun um Gálgahraun, þrátt fyrir að nokkur styr standi um framkvæmdina. Þeim tilmælum er þó beint til Vegagerðarinnar að mannvirkin falli sem best að landslaginu.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í morgun og meðal annars lagt fram bréf Hraunavina þar sem fram kemur að það þjóni ekki markmiðum samtakanna að færa veginn lengra inn í hraunið til norðurs.

Tillaga formanns bæjarráðs var samþykkt en í henni segir að þeim tilmælum skuli beint til Vegagerðarinnar, að komi til gerðar hljóðmana við veginn verði þess gætt að mannvirkin falli sem best að því landslagi sem fyrir er, til dæmis með hleðslu veggja úr hraungrýti, í bland við önnur efni s.s. tré og gler.  „Lögð skal áhersla á að fjallasýn skerðist ekki umfram það sem nú er. Haft skal samráð við næstu nágranna og helstu hagsmunaaðila er hafa látið sig málið varða.“

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert