„Ég held að þeir séu að taka þetta út núna vegna þess að eftir 67 ára aldurinn getur þetta haft áhrif á tekjur þeirra frá Tryggingastofnun vegna þess að þá kemur það sem þeir eru að taka út til skerðingar.“
Þetta segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, aðspurð hvers vegna eldri borgarar hafi í auknum mæli frá hruni tekið út séreignarlífeyrissparnað sinn.
Að sögn Jónu kemur það til skerðingar öðrum lífeyri ef fólk á lífeyrissparnað og hefur af honum fjármagnstekjur. „Þess vegna held ég að fólk sé að tryggja sig, það er að taka þetta út áður en það þarf að sækja um lífeyri,“ segir Jóna í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Aðspurð hvort eldri borgarar séu mögulega að taka út séreignarlífeyrissparnað til þess að greiða auðlegðarskatt segir Jóna svo vera. „Já, þeir eru líka að gera það. Ég veit dæmi þess að fólk sem er með auðlegðarskatt hefur engar tekjur til að borga þennan skatt og það gengur á sparifé og sjálfsagt alveg eins á þennan sparnað og annan.“