„Við fundum eina kind þannig að ein stúlka í björgunarsveitinni fann holu og gekk að henni en pompaði þá niður og lenti ofan á kind sem var þar undir. Henni brá mikið og fannst þetta frekar óhuggulegt,“ segir Þorsteinn Jónsson, félagi í björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli.
Þorsteinn er einn þeirra rúmlega 100 björgunarsveitarmanna sem voru við fjárleit á Norðurlandi um síðustu helgi. Hans hópur fann 42 kindur á lífi og 17 dauðar. Af þessum 42 var tæplega helmingur grafinn úr fönn, en hinar höfðu komið upp úr snjónum dagana á undan.
Björgunarsveitarmenn hafa margar sögur að segja af leitinni, en það er oft tilviljun að kindurnar finnast. Algengt er að kindurnar komi í ljós vegna þess að snjórinn hefur verið að bráðna síðustu daga. Myndin sem fylgir fréttinni sýnir vel hvaða sjón blasti við leitarmönnum á Þeistareykjasvæðinu um helgina.
Þorsteinn sagði að þessi ær með tvo lambhrúta hefði fundist norðan við Gæsafjöll. „Þó að hausarnir stæðu upp úr snjónum voru kindurnar það máttfarnar að þær gátu ekki hoppað upp úr. Það myndast yfirleitt hellir undir kindunum og þær höfðu því ekkert til að spyrna sér í til að hoppa upp. Við lyftum þeim upp og leiddum þær heim í bíl. Þær eru komnar heim á bæ,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði að lömbin hefðu verið orðin mjög létt, enda hefðu þau verið í svelti í tæplega þrjár vikur.
Þorsteinn sagði að almennt hefði féð sem fannst verið búið að leggja mikið af, en sum hrútlömbin hefðu þó verið í þokkalegu ástandi.
Hópurinn sem Þorsteinn var í fann talsvert margt fé grafið í fönn. „Ég var á skóflunni meira og minna allan daginn. Ég held að ég hafi grafið upp 10 kindur. Sumar af þeim voru enn alveg á kafi.“
„Við fundum einn lambhrút á þann hátt að við heyrðum hann jarma. Bóndinn sem var með okkur stoppaði okkur og sagði: „Mér fannst ég heyra jarm.“ Við stoppuðum og biðum í algjörri þögn. Svo heyrðum við aftur jarm og þá var lambið bara beint undir löppunum á mér. Við grófum svo niður og fundum hrútinn. Hann var þar einn á um eins metra dýpi,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn sagði líklegt að fleiri kindur væru enn grafnar í snjónum, en hann sagði óvíst hvort hægt yrði að finna meira á lífi. Sumir björgunarsveitarmenn hefðu verið við leit alla helgina og kannski ekki fundið nema eina kind. Bændur myndu hins vegar án efa halda áfram að fara um svæðið.