„Þetta er ekkert lítið afdrifarík ákvörðun að taka, fyrir almenningssamgöngur á öllu höfuðborgarsvæðinu næstu áratugina. Ég mæltist eindregið til þess að menn flýti sér hægt og áður en það fer hálfur milljarður í þetta þá splæsi menn nú kannski í ofurlitla úttekt á því hvar er best að hafa þessa miðstöð,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Á borgarstjórnarfundi í dag gagnrýndi Kjartan harðlega fyrirætlanir borgaryfirvalda um að kaupa Umferðarmiðstöðina (BSÍ) fyrir 445 milljónir króna og færa aðalskiptistöð Strætó þangað frá Hlemmi. Engin formleg ákvörðun hefur verið tekin um það í borgarkerfinu að færa aðalskiptistöðina að BSÍ og Kjartan segir áhöld um hvort sú staðsetning sé heppileg.
Ekkert faglegt mat verið gert
Reglulega hefur verið rætt um að færa aðalskiptistöð Strætó og fyrir nokkrum árum var áætlað að gerð yrði hagræn úttekt á því hvar besta staðsetningin væri. Kjartan rifjar upp að þá hafi verið talað um að stöðin þyrfti að vera sem næst miðju Reykjavíkur þegar litið er til fólksfjölda og umferðarþunga og áætlað að til að virka sem skyldi mætti hún ekki vera vestar en Kringlan.
Ekkert faglegt mat hefur hins vegar enn verið gert og segir Kjartan ótrúlegt að nú skuli vera stefnt að kaupum á BSÍ til að koma þar fyrir skiptistöð án þess að sérfræðimat liggi fyrir. „Það sem hefur gerst á þessum sjö árum er auðvitað bara að það er komin enn meiri byggð fyrir austan en vestan,“ segir Kjartan. Hann segir það hafa verið mikið heillaspor á sínum tíma að sameina almenningssamgöngur Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga í eitt og sama leiðarkerfið en aðalskiptistöðin þurfi líka að taka mið af því.
Myndi þjóna austurhverfunum illa
„Með því að velja meginskiptistöð stað svo vestarlega í borginni er verið að gera það erfiðara en ella að bæta þjónustu strætisvagna við austurhverfi borgarinnar, en úr þessum hverfum borgarinnar koma helst ábendingar um að bæta þurfi þjónustu strætisvagna,“ segir Kjartan og bætir því við að verðið, 445 milljónir, sé afar hátt miðað við hve mikil óvissa ríki um skipulagslega stöðu lóðarinnar.
„Því má færa rök fyrir því að einungis sé verið að kaupa húsið en ekki lóðina. Eignist borgin húsið þarf væntanlega að gera á því kostnaðarsamar endurbætur, sem bætist við kaupverðið. Þetta lýsir ótrúlegri hvatvísi finnst mér.“