Miklar breytingar í vændum við Hlemm

Ný tækifæri skapast til uppbyggingar á Hlemmi ef hugmyndir ganga eftir um að flytja aðalskiptistöð Strætó á Umferðarmiðstöðina (BSÍ) sem Reykjavíkurborg hyggst kaupa. Borgarstjórn samþykkti í dag að efna til samráðs um framtíðarnotkun stöðvarhússins. 

Í  greinargerð með tillögunni sem samþykkt var í dag kemur fram að stefnt er að því að byggja upp litlar og meðalstórar íbúðir á reitum í nágrenni við Hlemm, auk atvinnu-, þjónustu- og gistirýmis. Talsverður sveigjanleiki myndist í skipulagi í kringum Hlemm verði skiptistöðin flutt og tækifæri skapist til að bæta aðstöðu fyrir gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur. 

Hlemmur fái andlitslyftingu

„Ekki er ólíklegt að með breyttu skipulagi fái Hlemmur andlitslyftingu sem viðkomu- og samskiptastaður þeirra sem leið eiga um miðborgina. Öflugar almenningssamgöngur munu þó áfram þjóna Hlemmsvæðinu og miðborginni,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Í greinargerðinni kemur einnig fram að samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni, Miðborgin okkar, hefur m.a. komið með þá hugmynd að í húsinu á Hlemmi verði lífrænn matarmarkaður. Haft verður samráð um framtíð Hlemms með það að markmiði að starfsemin þar verði til framdráttar fyrir íbúa þess og nálæga verslun við Laugaveg.

Miklar breytingar eru í vændum í nágrenni Hlemms en talsverð uppbygging er framundan í Einholti, Þverholti, Bolholti, Hverfisgötu og Snorrabraut, svo ekki sé minnst á Landspítalareit. Uppbygging á þessum svæðum býður upp á ný tækifæri  fyrir skiptistöðina á Hlemmi.

Húsið á Hlemmi var byggt 1973 og er höfundarverk Gunnars Hanssonar arkitekts og er saga hússins samofin vaxtarsögu borgarinnar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert