Ríkisstjórnarflokkar tapa fylgi

Ekkert af nýju framboðunum fjórum næði flokki inn á þing …
Ekkert af nýju framboðunum fjórum næði flokki inn á þing eins og staðan mælist í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Mbl.is/Golli

Ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem RÚV sagði frá í kvöldfréttum. Enginn flokkanna sem bjóða sig fram í fyrsta skipti nær manni inn á þing, en minnst vantar upp á hjá Bjartri framtíð.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr með mest fylgi, 37,1 prósent, og bætir við sig frá síðustu könnun að því er RÚV segir frá. Ríkisstjórnarflokkarnir mælast nú hins vegar með tveimur prósentustigum minna fylgi en í síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 19,4 prósent en Vinstri-grænir 12,4 prósent. Framsókn mælist með 14,2% fylgi, sem er svipað og í september.

Nýju framboðin fjögur mælast með talsvert minna fylgi, en Björt framtíð er með 4,9% og þar með næst því að ná manni inn á þing, en til þess þarf 5% kosningu. Næst koma Hægri-grænir með 4,4%, Dögun með 3,6% og Samstaða með 2,4%.

Þjóðarpúls Gallup var tekinn 30. ágúst til 27. september. 5.591 var í úrtakinu en svarhlutfallið var rétt rúm sextíu prósent. 71,6 prósent tóku afstöðu til flokka. Tæp 14 prósent ætla ekki að kjósa eða ætla að skila auðu en litlu fleiri gáfu ekki upp afstöðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert