Umferð um hringveginn hefur dregist stanslaust saman í september frá árinu 2007. Hefur umferðin ekki verið jafn lítil og í nýliðnum mánuði frá árinu 2005. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Þrátt fyrir að umferðin á hringveginum, 16 völdum stöðum, hafi dregist nokkuð saman í september spáir Vegagerðin því áfram að umferðin í ár verði sú sama á hringveginum og hún var í fyrra. Samdrátturinn í september nam 2,3 prósentum og hefur umferðin í ár dregist saman um 0,4 prósent.
Mestur samdráttur á Mýrdalssandi
Umferð á hringvegi dróst samtals saman um 2,3% milli mánaða. Mest dróst umferð saman á Norður- og Vesturlandi eða um rúmlega 6%. Umferð á hringvegi um Austurland jókst aftur á móti mikið eða um 8,5% á milli ára í september. Vægi Austurlands á heildartöluna er lítið og því hefur þessi mikla aukning þar lítil áhrif samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar.
Á einstaka talningastöðum þá dregst umferð mest saman á Mýrdalssandi um 14% en eykst mest á Hvalsnesi í Lóni eða um 27%. Á báðum þessum stöðum er umferðin lítil í samanburði við flesta aðra staði sem eru mældir af Vegagerðinni og því hafa þessar sveiflur lítil áhrif á heildina.
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu dróst saman í september um 0,9 prósent. Frá áramótum hefur umferðin hinsvegar aukist um 1,1 prósent. Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst mest í júlímánuði.
Vegagerðin spári því nú, líkt og í síðasta mánuði að umferðin á höfuðborgarsvæðinu muni í ár aukast um 1,0 - 1,5 prósent.