Á milli 15 - 20 Íslendingar þarfnast líffæraígræðslu á ári hverju. Mikill skortur er á líffærum til ígræðslu og lagði hópur þingmanna, undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins, fram tillögu á Alþingi í fyrra um að lögum yrði breytt á þann hátt að Íslendingar verði sjálfkrafa líffæragjafar við andlát, nema aðrar óskir hafi komið fram áður.
Kjartan Birgisson fagnar tillögunni og vonar að hún verði að lögum. Hann fæddist með hjartagalla og fékk nýtt hjarta fyrir tveimur árum, einn 15 Íslendinga sem fengið hafa nýtt hjarta.
„Eftir allskonar rannsóknir, mikla lyfjagjöf og tilraunir til að laga ástandið var sýnt að ég væri kominn með hjartabilun á lokastigi. Það er bara ein viðgerð á því og það er að skipta um líffærið,“ segir Kjartan.
Þá tók við bið hjá Kjartani, þar sem hann gat átt von á símtali á hverri stundu þar sem hann yrði boðaður í aðgerðina. Kallið kom 19 vikum síðar, Kjartan fór með hraði á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð og við tók tíu tíma aðgerð.
„Þá skeður allt mjög hratt,“ segir Kjartan. „Þá er bara beint út á flugvöll og flogið út og maður er kominn í aðgerð innan hálfs sólarhrings og vaknar daginn eftir í nýju lífi. Svo tekur við óendanleg endurhæfing sem stendur enn.“
Hvernig tilfinning var þegar þú fékkst boð um að þín biði nýtt hjarta í Svíþjóð? „Ég var búinn að bíða svo lengi eftir þessu, að ég var svo tilbúinn. Það var ekkert nema tilhlökkun.“
Líffæri, sem gefin eru á Íslandi, eru flutt til Sahlgrenska sjúkrahússins og verða þar hluti af líffærabanka norrænu ígræðslusamtakanna Scandiatransplant sem Ísland á aðild að.
Þingsályktunartillagan bíður nú umræðu á þingi. Hægt er að fylla út líffæragjafakort, sem fá má á heilsugæslustöðvum og einnig er hægt að koma ákvörðun varðandi afstöðu til líffæragjafar á framfæri í lífsskrá Embættis landlæknis.