Árni Páll í formannsframboð

Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Árni Páll Árnason alþingismaður hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns í Samfylkingunni, en nýr formaður verður kjörinn í byrjun næsta árs. Hann segist vonast eftir að formaður verði kjörinn í almennri atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna, í samræmi við lýðræðishefð Samfylkingarinnar.

Árni Páll er 46 ára gamall, lögfræðingur að mennt. Hann hefur verið alþingismaður frá árinu 2007 og var félags- og tryggingamálaráðherra 2009-2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010-2011.

Samfylkingin stuðli að samstöðu í mikilvægum málum

Þú talar í yfirlýsingu um framboðið um að Ísland sé á krossgötum og standi kyrrt og að stjórnmálin séu ennþá eins og ekkert hafi gerst og ekkert muni breytast. Felur þetta ekki í sér vissa gagnrýni á Samfylkinguna og forystu hennar?

„Ég held að þetta sé einföld lýsing á staðreyndum sem við höfum öll upplifað. Stjórnmálin megna hvorki að auka fólki tiltrú á afl þeirra til að vísa veginn áfram né að ná efnislega saman um niðurstöðu í mikilvægum málum. Það sem við virðumst geta gert er að vera ósammála um möguleg bjargráð, en vandinn er öllum ljós.“

Hvaða leið sérð þú út úr þessu?

„Við verðum að tileinka okkur víðtækara samráð og þar hefur Samfylkingin lykilhlutverki að gegna út frá því hversu fjölbreyttur og fjölþættur flokkur hún er. Hún á að geta leitt slíkt samstillt átak og farið í fararbroddi fyrir breyttar aðferðir og áherslur. Flokkurinn þarf að leita samstöðu um leiðina áfram. Ef menn komast ekki stór skref þá er hægt að taka minni skref.“

Þú talar líka um að formaður Samfylkingarinnar eigi að virða og virkja þennan fjölbreytileika sem flokkurinn er ofinn úr. Finnst þér að hafi eitthvað hallað á suma hópa innan hennar á síðustu árum í þessum efnum?

„Ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á að styrkur Samfylkingarinnar liggur í fjölbreytninni og í því að þessir ólíku þræðir koma saman. Þess vegna verður Samfylkingin sterkari en væri ef hún væri einsleitur flokkur, hvort heldur hún væri hefðbundin gamaldags vinstriflokkur, hefðbundinn kvenfrelsisflokkur eða hefðbundinn hægrikrataflokkur. Hún er annað og meira. Hún skapar fjölbreytilega mynd og í því er kraftur hennar fólginn. Það hentar þjóðinni og Samfylkingunni að nýta þennan kraft til að hvetja til þessa samtals.“

Margir telja að umsókn Íslands um aðild að ESB sé í sjálfheldu. Hvernig vilt þú vinna það mál á næstu misserum? Er þörf á stefnubreytingu?

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi aðildarumsókn haldi áfram og að við lokum ekki þessum dyrum að óþörfu. Land sem býr við óvíst viðskiptaumhverfi og fáa augljósa kosti í stöðunni á ekki að leika sér að því að loka möguleikum að óathuguðu máli. Hitt er líka ljóst að við verðum að byggja upp víðtæka samstöðu um áframhaldið. Við verðum að tryggja að þetta verkefni haldi áfram og taka okkur þann tíma í það sem þarf til að það sé raunsætt að við náum niðurstöðu innan þessa tímaramma.“

Yfirlýsing sem Árni Páll sendi félagsmönnum í Samfylkingunni

Ágætu félagar.

Ég tilkynni í dag um þá ákvörðun mína að óska eftir stuðningi ykkar við val á formanni flokksins á vetri komanda. Von mín er að kjör formanns fari fram með almennri atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna, í samræmi við lýðræðishefð Samfylkingarinnar.
Ísland er á krossgötum og stendur þar kyrrt. Þjóðin þarf að velja rétta leið.

Efnahagsumhverfið hefur aldrei verið jafn óvisst. Ísland er fast í höftum og lífskjör dragast aftur úr því sem tíðkast í nálægum löndum. Hægt og rólega færumst við fjær fullgildri þátttöku í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og hættan af haftabúskap, einokunarveldi og einhæfni í atvinnuháttum blasir við. Betur launuðum störfum mun fækka og öflugustu fyrirtækin munu halda áfram að vaxa erlendis. Samt er flest í stjórnmálunum ennþá eins og ekkert hafi gerst og ekkert muni breytast.

Það hefur verið hlutverk Samfylkingarinnar að leiða ríkisstjórn á undanförnum árum og glíma við áhrif og afleiðingar hrunsins. Við getum verið stolt af því verki.

Þegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 rættist áratugagamall draumur fólks á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Þau sem að því komu vonuðu að þessi flokkur yrði fær um að setja mark sitt á samfélagsþróunina og leiða ríkisstjórn. Engan óraði fyrir að þegar flokkurinn fengi stjórnarforystu í fyrsta sinn yrði verkefnið jafn óvenjulegt og raun ber vitni.

Samfylkingin er ofin úr mörgum þráðum hefðbundinnar jafnaðarstefnu, kvenfrelsis, verkalýðshreyfingar, umhverfisverndar og athafnafrelsis. Hún er líka flokkur stjórnfestu og samtaks á forsendum almannahagsmuna. Framundan er að leysa úr læðingi og virkja til fulls þessa fjölbreyttu krafta sem búa í flokknum og þeim breiða hópi fólks sem vill styðja hann. Þeir munu nýtast til nýs átaks sem skili samfélagssýn jafnaðarmanna áfram til íslensks samfélags og nýrra kynslóða.

Formaður Samfylkingarinnar á að virða og virkja þennan fjölbreytileika og styðja við hann  í starfi sínu.

Mikil verkefni bíða. Þeim þarf að mæta af elju og æðruleysi. Það er sögulegt hlutverk Samfylkingarinnar að veita forystu og vísa veginn fram á við. Það er okkar að kalla saman ólík öfl á forsendum almannahagsmuna, byggja brýr milli andstæðra fylkinga og feta þá leið sem er fær. Þess væntir þjóðin af burðarflokki í stjórnmálum.

Til þessara verka vil ég ganga. Ég hlakka til að hitta fólk um land allt á næstu mánuðum, hlusta og ræða úrlausnarefnin.

Árni Páll Árnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert