Menntamálaráðuneytið hefur sent Tálknafjarðarbæ bréf þar sem bent er á að ekki sé leyfilegt að eini skóli bæjarins sé rekin eftir Hjallastefnunni.
Í bréfinu kemur fram að Hjallastefnan ehf, sem tók við rekstri skólans í haust, hafi ekki fengið viðurkenningu frá ráðuneytinu.
Í bréfinu til oddvita Tálknafjarðarhrepps, sem dagsett er 21. september, kemur fram að einkaaðila sé ekki heimilt að reka eina grunnskóla sveitafélagsins. Að auki hafi Hjallastefnan ekki fengið viðurkenningu ráðuneytisins.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, vildi lítið tjá sig um málið en sagði þó að hún hafi fengið bréfið í hendur í gær, þrátt fyrir að það hafi verið dagsett 21. september. Nú fari hún yfir innihald þess með lögfræðingum.
Hún telur að í bréfinu séu misvísandi skilaboð en þar stendur orðrétt: „Sú ákvörðun Tálknafjarðarhrepps að standa með framangreindum hætti að skólahaldi á yfirstandandi skólaári sætir hins vegar ekki endurskoðun.“ „Ég er ekki lögfræðingur en ég átta mig ekki á því hvað þetta merkir,“ segir Eyrún.
Menntamálaráðuneytið hefur vakið athygli innanríkisráðuneytisins á málinu en það ráðuneyti fer með eftirlit með því að sveitarfélög ræki lögbundnar skyldur sínar.
„Við höfum talið okkur vera að vinna í góðu samráði við menntamálaráðuneytið,“ segir Eyrún sem segir að bréfið hafi komið henni í opna skjöldu.
„Í mínum huga eru flestir sem að skólanum koma afskaplega ánægðir og það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Eyrún.
Hún segir að þrátt fyrir að Hjallastefnan ehf. sé einkarekin sé ábyrgð menntamála á herðum sveitarfélagsins.
„Ákvörðun um Hjallastefnuna var tekin í vor. Skólinn er eftir sem áður með fulla ábyrgð á yfirstjórn sveitarfélagsins,“ segir Eyrún.