Verslunarkeðjan Iceland, sem er í eigu Jóhannesar Jónssonar, hefur tekið á leigu húsnæði við Fiskislóð, sem áður hýsti verslun Europris. Jóhannes hyggst opna nýja verslun þar hinn 1. desember.
Fyrsta Iceland-verslunin hér á landi var opnuð í Engihjalla í Kópavogi í sumar.
„Það er aldrei að vita, þótt það liggi ekki fyrir í dag,“ segir Jóhannes, spurður hvort til standi að opna fleiri verslanir Iceland. „Maður veit aldrei hvað verður á morgun.“
Nýja verslunin verður nokkru stærri en sú sem fyrir er, eða um 400 fermetrum. Jóhannes segir svipaðar áherslur verða í verslununum tveimur.