Mikið var rætt um fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á gistinætur á Íslandi á Vestnorden ráðstefnunni sem lauk í Hörpu í dag. Ýmsir erlendir aðilar í ferðaþjónustu hafa lýst yfir þungum áhyggjum hans vegna.
Danir voru farnir að leyfa sér að fara til Íslands
Merete Bach Kristensen hjá dönsku ferðaskrifstofunni Iceland Explorer hefur selt ferðir til Íslands í fjölda ára. „Þetta hefur mjög slæm áhrif fyrir okkur sem seljum ferðir til Íslands. Dönum hefur í gegnum tíðina þótt afar dýrt að koma til Íslands en síðustu ár hefur okkur tekist að sannfæra farþega okkar að svo sé ekki, enda krónan afar hagstæð. Þessi hækkun myndi eyðileggja þá ímynd sem við höfum náð að byggja upp um Ísland sem hagstæðan kost. Fleiri Danir voru byrjaðir að leyfa sér að fara til Íslands og það væri leiðinlegt ef sú þróun myndi ganga til baka,“ segir hún.
Munum leita að raunhæfari áfangastöðum
Martin Wäger hjá AG Traveltrend í Sviss segir að ferðaþjónustan sé mjög næm fyrir verðbreytingum. „Þó það sé ódýrara að fara til Íslands nú en áður, er ennþá mjög dýrt að fara til Íslands þar sem það er mjög einangraður staður. Bílaleigubílar eru til dæmis þeir dýrustu. Ef við töpum viðskiptum við Ísland vegna of hás verðlags, munum við strax fara að einbeita okkur að öðrum mörkuðum,“ segir hann.
„Með öðrum orðum, þá er verðlag á Íslandi ekki okkar vandamál, ef það hækkar munum leita að raunhæfari áfangastöðum,“ segir Wäger.
2-3% hækkun raunhæfari
Hann spyr sig hvort löggjafinn hafi íhugað minni hækkanir. „Kannski 2-3%, þannig að allir verði ánægðir.“ Hann bætir við: „Ísland er ekki miðpunktur heimsins í ferðamennsku. Því biður maður um raunhæfari hækkanir,“ segir Wäger.