Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, verður sjötug á morgun. Samkvæmt upplýsingum um forsætisráðuneytinu verður hún að heiman á afmælinu.
Jóhanna sat ríkisráðsfund á Bessastöðum á mánudaginn og stýrði ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Hún er ekki við vinnu í dag og fengust ekki upplýsingar úr ráðuneytinu um hvernig hún ætlaði að verja afmælisdeginum.
Jóhanna lýsti því yfir í síðustu viku að hún myndi hætta í stjórnmálum í lok þessa kjörtímabils og myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Samfylkingarinnar.
Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar árið 2009. Hún hefur verið alþingismaður síðan 1978 eða í 34 ár. Jóhanna var félagsmálaráðherra 1987-1994 og 2007-2009 og forsætisráðherra síðan 2009.