Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland að fá sambærileg vaxtakjör og Írland á láninu sem Norðurlöndin veittu eftir efnahagshrunið. Lánið nam tæpum 1800 milljónum evra en þegar er búið að endurgreiða meirihluta lánsins, þótt samningurinn hafi ekki gert ráð fyrir að endurgreiðsla hefðist fyrr en 2014.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld hefur Helgi Hjörvar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, beint fyrirspurn til ríkisstjórna Norðurlandanna um hvers vegna þau bjóði Íslandi lakari vaxtakjör en Írlandi á sambærilegum lánum sem veitt voru eftir hrun. „Ég held það sé sjálfsagt að við spyrjum hvort eðlilegt sé að Norræn ríki njóti ekki verri kjara en önnur ríki Evrópu í sambærilegri stöðu,“ segir Helgi Hjörvar.
Ísland samdi um lánakjör sín við Norðurlöndin í júní 2009 með 2,75 prósentu álagi, en lánið til Írlands var veitt nokkuð síðar með 1 prósent álagi. „Kjörin sem Írland nýtur voru náttúrulega ákveðin síðar, það kann að skýrast af því að Írar voru ósáttir við þau kjör sem þeim var upphaflega boðin í lánafyrirgreiðslu Evrópusambandsins og það hafi haft áhrif,“ segir Helgi Hjörvar aðspurður hvort eitthvað hafi breyst í ytri aðstæðum á tímabilinu milli lánveitinganna sem kunni að skýra muninn.
Fjögur ár eru liðin síðan lánin voru veitt. Samkvæmt samningnum áttu fyrstu 5 árin að vera afborgunarlaus og vextir aðeins greiddir ársfjórðungslega. Seðlabankinn ákvað hins vegar að hefja endurgreiðslur fyrr, í mars síðastliðnum, og nú hafa 59% lánanna verið endurgreidd á þeim vaxtakjörum sem upphaflega var samið um.
Er inni í myndinni að vextir verði lækkaðir í miðju ferlinu?
„Við verðum að spyrja að leikslokum í því, en ég held að það sé eðlilegt að við tökum þetta upp á vettvangi Norðurlandaráðs og fylgjum þessu eftir á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki síðar í mánuðinum. Þar hittum við þingmenn hinna Norðurlandanna og fáum tækifæri til að ræða þetta við þá, og eins við ráðherra. Hér eru svo miklir hagsmunir í húfi að það er full ástæða til að fylgja því fast eftir,“ segir Helgi.
Hann hefur þó ekki útreikning á því hversu mikið þær vaxtagreiðslur sem eftir standa myndu lækka í krónum talið verði kjörin jöfnuð á við írska lánið.