Þrítug nígerísk kona var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun dæmd í þrjátíu daga fangelsi fyrir skjalafals. Konan sem kom með flugi frá Ósló 23. september framvísaði þremur grunnfölsuðum skilríkjum á Keflavíkurflugvelli.
Skilríkin voru kennivottorð frá Ítalíu, ferðaskilríki útlendings frá Ítalíu og dvalarleyfisskjal frá Ítalíu. Öll skilríkin voru á nafni konu á þrítugsaldri.
Verjandi konunnar fór fram á vægustu refsingu en samkvæmt dómaframkvæmd er hún þrjátíu daga fangelsi. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 26. september sl.
Auk fangelsis er konunni gert að greiða verjanda sínum tæpar 80 þúsund krónur í þóknun.