Ólafur M. Magnússon, stjórnarformaður DV, segir það grafalvarlegt mál þegar fyrirtæki geti ekki staðið skil á vörslugjöldum. „Ég get staðfest það að það eru vanskil [hjá DV] annars vegar á vörslugjöldum gagnvart hinu opinbera og hins vegar vörslufé gagnvart lífeyrissjóðum og stéttarfélögum.“
Ólafur segir að það sé miður að afkoma DV hafi verið með þeim hætti að fjölmiðilinn hafi ekki getað staðið við sínar skuldbindingar. Að sögn Ólafs hófust viðamiklar aðhaldsaðgerðir hjá DV í október í fyrra. Hann segir vinnu við endurskipulagningu á rekstrinum hafa gengið vel og sé að mestu lokið. Lokahnykkurinn sé hins vegar eftir.
„Rekstrarafkoman, það sem af er árinu, gefur tilefni til bjartsýni. Hluthafar hafa komið með aukið hlutafé til blaðsins núna á síðustu dögum. Það er fyrirséð hlutafjáraukning; það er búið að boða til hluthafafundar núna í október þar sem verður farið í og gefin út heimild til hlutafjárhækkunar til að mæta þeim skuldbindingum félagsins sem það á óuppgert, og ljúka þeim í farsælan farveg fyrir áramót,“ segir Ólafur.
„Það er ljóst að dagblaðið mun verða sjálfbært á næsta ári,“ segir Ólafur og bætir við að það sé starfsmönnum, lánardrottnum og birgjum að þakka.
„Síðan hefur verið farið í miklar aðhaldsaðgerðir sem hafa auðvitað komið niður á starfsfólki DV, sem hafa tekið þessu af miklu æðruleysi og sýnt mikla samstöðu með blaðinu. En þetta voru nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir til að tryggja reksturinn.“
Starfsmönnum hefur verið sagt upp í þessum aðgerðum og að sögn Ólafs ná uppsagnirnar til allra deilda fyrirtækisins. Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæma tölu um hversu marga starfsmenn sé að ræða. „Það segir sig sjálft að þetta er náttúrulega búið að vera á rúmu ári talsvert mikil aðgerð og ekki sársaukalaus.“
Spurður hvort aðgerðirnar hafi komið niður á launagreiðslum til starfsmanna, t.d. hvort yfirvinna hafi ekki verið greidd til þeirra, segir Ólafur að stjórn fyrirtækisins hafi engan vilja til að hlunnfara sína starfsmenn. „Starfsmenn eru auðlind fyrirtækisins og án þeirra góðu starfsmanna sem DV hefur á að skipa þá gerum við ekki neitt. Hafi slíkt hent þá er það hreinlega mannleg mistök. Þau verða leiðrétt ef svo er. Ég get auðvitað ekki fullyrt það að engin mistök hafi átt sér stað.“
Ólafur segir að DV hafi staðið frammi fyrir miklum vanda í lok sumars. „Sá vandi hefur verið farsællega leystur og það er alveg ljóst að dagblaðið er búið að komast yfir erfiðasta hjallann og það er bjart framundan. Það er fyrst og fremst samstöðu starfsmanna og stjórnenda blaðsins að þakka að menn eru búnir að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Svo hafa auðvitað hluthafar staðið á bak við blaðið.“
Ólafur settist í stól stjórnarformanns DV sl. vor. Hann segir að þegar að hann hafi komið að borðinu þá hafi fyrirtækið verið búið að safna umtalsverðum skuldum. Samkomulag hafi hins vegar náðst við embætti tollstjóra um vörslugjöld. Þá sé samkomulag við aðra aðila í burðarliðnum. „Þessi rekstur verður í skilum og er búinn að vera í skilum. Menn hafa ekki verið að auka skuldirnar og lækkuðu í raun þessar skuldir um 25-6 milljónir í september.“
„Okkar vandi var talsverður. En hins vegar ber á það að geta að dagblaðið hefur haldið úti sterku og öflugu blaði ásamt því að byggja upp þriðja stærsta vefmiðilinn. Það hefur auðvitað verið gert á kostnað þess að menn hafa ekki staðið skil á þessum gjöldum. Það er auðvitað grafalvarlegur hlutur og algjörlega óásættanleg frammistaða af okkar hálfu,“ segir Ólafur og bætir við að þannig muni það ekki verða til framtíðar.