Um eitt og hálft ár er liðið frá því samningur Læknafélags Reykjavíkur (LR) og Sjúkratrygginga Íslands um sérfræðilæknisþjónustu rann út. Formaður LR segir í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins, sem ber yfirskriftina „Rólegt yfir samningamálum“, að ef Vinstri grænir fengju að ráða „yrðu sjálfsagt engir samningar gerðir við sérfræðilækna.“
Steinn Jónsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir í greininni að læknar séu orðnir ýmsu vanir frá hendi stjórnmálamanna „en þó held ég að ekkert hafi ennþá slegið út nýlega samþykkt flokksráðsfundar VG þar sem gert er ráð fyrir að starfsemi einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustunni verði bönnuð. Þessi fáheyrða ályktun var samþykkt þarna með tilheyrandi fúkyrðaflaumi í garð lækna. Engu skiptir þótt slík ákvörðun kynni að brjóta í bága við stjórnarskrárvarin réttindi lækna til að stunda sín störf á sjálfstæðum læknastofum,“ skrifar Steinn.
„Ef VG fengju að ráða yrðu sjálfsagt engir samningar gerðir við sérfræðilækna. Spyrja má hvað mundi þá taka við með heilsugæsluna og Landspítala á hnjánum vegna fjárskorts og stjórnunarvanda. Mundu þeir 6-8 milljarðar króna sem nú fara til sérfræðiþjónustunnar nægja til að taka við 500.000 komum til lækna hjá þessum aðilum,“ spyr Steinn í beinu framhaldi.
Hann bendir á í greininni að í aðdraganda samningsslitanna í apríl 2011 hafi LR boðið SÍ að samið yrði um 9,4% hækkun á einingaverði í áföngum á þriggja ára tímabili. Það hafi verið nákvæmlega sama prósentuhækkun og LR hefði gefið eftir án skilyrða árið 2009 þegar afleiðingar bankahrunsins hefðu verið hvað erfiðastar.
„Þeir sem fylgdust grannt með þessu máli vissu að SÍ vildi gjarnan semja en ríkisstjórnin stæði í vegi fyrir því. Skýringin var sú að ekki væri hægt að semja við lækna um meiri hækkun en samið yrði um á almennum vinnumarkaði. Þegar til kom var samið við sjúkrahúslækna til 2014 um hækkun á bilinu 12-15% eftir starfshlutfalli. Ætla má að stjórnvöld hafi hlaupið alvarlega á sig þegar þessu tilboði var hafnað og ólíklegt að annað eins tilboð frá sérfræðilæknum líti dagsins ljós,“ skrifar Steinn.
Þá kemur fram að velferðarráðherra hafi gefið út reglugerð sem hafi gilt frá 1. apríl 2011 um heimild til endurgreiðslu til sjúklinga sem leiti til sérfræðilækna á grundvelli þess samnings sem gilti fyrir samningsslitin. Reglugerðin hafi síðan verið framlengd í þrígang og gildi nú til loka júní 2013. „Engar raunverulegar samningaviðræður hafa átt sér stað milli LR og SÍ, þó að í lögum segi að endurgreiðsluheimild sé aðeins tímabundin,“ skrifar Steinn.