„Samkomulagið sem var gert milli Samtaka atvinnulífsins, stóriðjufyrirtækjanna og fjármálaráðuneytisins árið 2009 var skýrt. Ráðuneytið hefur margoft staðfest að skattarnir yrðu settir á tímabundið en yrðu síðan felldir niður. Allt bendir til að það loforð verði svikið.“
Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Morgunblaðinu í dag, en um er að ræða svonefndan orkuskatt sem SA áætla að skili ríkissjóði 6,6 milljörðum 2011 til 2013.
Vilhjálmur segir stjórnvöld hafa svikið loforð um viðræður um framhaldið. Orkuskatturinn auki rekstrarkostnað stóriðjunnar og fæli frá erlenda fjárfestingu, þvert á loforð stjórnvalda í því efni. Fjárfesting í álverinu í Straumsvík hafi verið gerð í trausti þess að skatturinn yrði afnuminn.