Varað við óvinsældum ESB-fánans

Norden.org

„Það þarf ekki annað en að aka um dalina og mýrarnar í kringum Eyjafjallajökul til þess að sjá dæmi um það hve áhuginn á inngöngu í Evrópusambandið hefur minnkað á meðal Íslendinga þar sem bændur hafa komið upp skiltum þar sem stendur: ESB - Nei takk,“ segir breski blaðamaðurinn Colin Freeman á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en hann var staddur hér á landi nýverið.

Freeman leggur í pistlinum orð í belg í þeirri umræðu sem skapast hefur í Bretlandi um IPA-styrki Evrópusambandsins til Íslands vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið en þarlendir stjórnmálamenn hafa undanfarið hneykslast á því að sambandið skuli vera að greiða háar fjárhæðir til Íslands í ýmis uppbyggingaverkefni í ljósi þess að Íslendingar séu ríkari en Bretar miðað við höfðatölu. Þá hefur Icesave-málið blandast inn í umræðuna og sú skoðun margra í Bretlandi að Íslendingar skuldi Bretum fé vegna þess.

Freeman furðar sig á því að verið sé að greiða IPA-styrki til Íslands til þess að undirbúa landið fyrir inngöngu í Evrópusambandið í ljósi þess að 2/3 Íslendinga séu andvígir því að ganga í sambandið. Peningarnir hafi meðal annars farið í að verkefnið Katla Jarðvangur í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli 2010 og er haft eftir umsjónarmanni verkefnisins, Steingerði Hreinsdóttur, að deila megi um það hvort rétt væri að taka við styrkjunum en fyrst þeir séu í boði sjái hún ekki hvers vegna ekki megi nýta þá til þess að efla svæði í hnignun.

Þá segir í umfjölluninni að íslenskir embættismenn hafi varað Steingerði við því að það kunni ekki að verða vinsælt á meðal íbúa svæðisins að setja upp skilti með fána Evrópusambandsins en venjulega gerir sambandið þá kröfu að verkefni sem fjármögnuð eru af því séu merkt fánanum. Haft er eftir Steingerði að embættismennirnir hafi sagt að Evrópusambandið vildi að auglýst væri að sambandið hefði veitt fjármagni til verkefnisins en að það skildi að það gæti verið viðkvæmt í augum bænda.

Ennfremur er haft eftir talsmanni Evrópusambandsins, þegar hann var spurður að því hvers vegna verið væri að greiða IPA-styrki til Íslands þrátt fyrir mikla andstöðu við inngöngu í sambandið, að styrkirnir væru hugsaðir til lengri tíma litið og stæðu öllum mögulegum umsóknarríkjum og umsóknarríkjum að sambandinu til boða.

Frétt Daily Telegraph

Bændur víða um land hafa stillt upp heyrúllum með áletruninni …
Bændur víða um land hafa stillt upp heyrúllum með áletruninni ESB - NEI TAKK. mbl.is/ÓM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert