EasyJet veðjar á Ísland

mbl.is

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet mun fljúga beint til bæði Manchester í Englandi og Edinborgar í Skotlandi. Þessar flugleiðir bætast við fast flug easyJet á milli Keflavíkur og Lundúna, en því verður fljótlega fjölgað í 4 daga í viku.

Flogið verður til Manchester og Edinborgar tvisvar í viku, hvor leið. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur nú í morgun og var þá einnig formlega opnað fyrir miðasölu til þessara tveggja borga. Nýju flugleiðirnar voru einnig kynntar í breskum fjölmiðum í morgun.

Ekki er útilokað að félagið bæti við enn fleiri áfangastöðum, en forsvarsmenn easyJet segjast veðja á að vinsældir Íslands sem ferðamannalands eigi enn eftir að aukast.

Byrjað að fljúga í mars

Flugið til Edinborgar hefst 14. mars og flug til Manchester 21. mars og er nú þegar hægt að bóka þessar ferðir á vef easyJet. Auk þessara nýju áfangastaða hefur félagið einnig aukið tíðni flugs til Lundúna, úr þremur ferðum í fjórar ferðir á viku. Næsta sumar verða því ferðir easyJet til Íslands samtals 8 í hverri viku.

Frá því að easyJet, sem er annað tveggja stærstu lággjaldaflugfélaga í Evrópu, hóf að fljúga til Íslands í mars á þessu ári hafa 30.000 farþegar nýtt sér flug félagsins.

EasyJet gerir ráð fyrir að 75.000 farþegar muni ferðast á þeirra vegum til og frá Lundúnum, Manchester,  Edinborgar næsta sumar, að því er segir í tilkynningu.

70% farþega útlendingar

„Mikil áhersla verður á að kynna Ísland fyrir íbúum þessara svæða og jafnframt vonast easyJet til að fleiri Íslendingar líti á félagið sem valkost þegar þeir skipuleggja sínar utanlandsferðir. Ef allt fer að óskum gæti heildarsætaframboð easyJet á Íslandi endað í 130.000 sætum á næsta ári. En ekki er útilokað að fleiri áfangastöðum verið bætt við leiðakerfið,“ segir ennfremur í tilkynningu frá easyJet.

Meirihluti farþega hjá easyJet til og frá Íslandi hafa verið erlendir ferðamenn eða um 70% á meðan 30% þeirra hafa verið Íslendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert