Flestir ánægðir með sumargötur

Mikil almenn ánægja var bæði meðal almennings og rekstraraðila við Laugaveg og Skólavörðustíg með lokanir fyrir bílaumferð um göturnar í sumar. 75,6% rekstraraðila segjast ánægðir með lokunina og 94% vegfarenda. Umferð gangandi vegfarenda jókst um þriðjung á meðan lokað var fyrir bílaumferð.

Þetta var annað árið í röð sem hluta Laugavegs og hluta Skólavörðustígs var breytt í göngugötu frá 17. júní til 20. ágúst. Á Skólavörðustíg var lokunin framlengd um viku í ár að ósk rekstraraðila við götuna. Rannsóknarhópurinn Borghildur fylgdist með götunum í sumar, bæði með myndbandsupptökum og skráningum á atferli fólks, í samvinnu við Pál Líndal umverfissálfræðing, auk þess sem viðhorfskannanir voru lagðar fyrir vegfarendur og rekstraaðila.

46,3% merkja jákvæð áhrif á viðskiptin

Niðurstöðurnar voru birtar í dag og eru þær áberandi jákvæðar í garð lokananna og hafði ánægjan aukist milli ára. Í fyrra kom í ljós að bæði vegfarendur og rekstraraðilar voru jákvæðari eftir tilraunina en fyrir. Meðal rekstraraðila við Laugaveg voru 43,3% jákvæðir fyrir lokunina, en 69% eftir hana. Eftir tilraunina í ár hefur jákvæðnin enn aukist því 75,6% rekstraraðila segjast ánægðir. Minni breyting er á viðhorfi vegfarenda, 91% þeirra sögðust jákvæðir í fyrra en 94% í ár. Við Skólavörðustíg er viðhorf rekstraraðila þó neikvæðara, en 55% eru jákvæð.

Þegar spurt var um áhrif lokunar fyrir bílaumferð á viðskiptin sögðust 46,3% rekstraraðila við Laugavega merkja jákvæð áhrif en 17,1% neikvæð áhrif og 24,4% engin áhrif. Við Skólavörðustíg sögðust 33,3% rekstraraðila merkja jákvæð áhrif, 16,7% neikvæð áhrif og 27,8% engin áhrif. 

Gangandi umferð jókst um 30%

Í samantekt Páls Líndals umhverfissálfræðings kemur fram að gangandi umferð um Laugaveg og Skólavörðustíg jókst um 30% eftir að lokað var fyrir bílaumferð, en sú aukning gekk að mestu til baka þegar opnað var fyrir umferð aftur. Straumur gangandi vegfarenda var undir áhrifum veðurs og minnkaði þegar rigning var samanborðið við heiðskírt eða hálfskýjað. 

Ekki komu fram neinar breytingar á því hversu margir stigu inn í verslanir í tengslum við lokun bílaumferðar. Fleiri námu staðar og stöldruðu við á göngu um svæðið en þegar bílaumferð var hleypt um það. Tiltölulega fáir nema þó staðar til að setjast niður við Laugaveg.

Nánar á síðu Borghildar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert