„Í umræðum um stjórnarskrárbreytingar og fyrirhugaða atkvæðagreiðslu 20. október nk. hafa allmargar rangar staðhæfingar verið endurteknar hvað eftir annað. Leiðréttingar hafa ítrekað komið fram, meðal annars frá helstu fræðimönnum landsins á þessu sviði, en misskilningur, einfaldanir og rangfærslur skjóta samt hvað eftir annað upp kollinum“, segir Birgir Ármannsson alþingismaður í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir Birgir að ein algengasta vitleysan sé sú, að við Íslendingar búum ekki við íslenska stjórnarskrá heldur við danska stjórnarskrá, sem Kristján IX. hafi fært okkur 1874.
Í grein sinni sem lesa má í heild í blaðinu í dag segir þingmaðurinn m.a.: „Vel má færa rök fyrir ýmsum endurbótum á núgildandi stjórnarskrá. Hins vegar verður því hvorki haldið fram að Íslendingar búi enn við danska stjórnarskrá Kristjáns IX., né að Alþingi hafi fram til þessa reynst ófært um að breyta stjórnarskránni. Staðhæfingar af því tagi standast enga skoðun og gefa ekki tilefni til allra þeirra umfangsmiklu breytinga, sem boðaðar eru í tillögum stjórnlagaráðs“.