Gat ekki losað tölvuna

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann bifreiðar í Reykjavík um klukkan tvö í nótt sem reyndist vera undir áhrifum kannabisefna. Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, hafði áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Þá hafði bifreiðin sem hann ók skráningarnúmer annarrar bifreiðar og var auk þess ótryggð.

Ennfremur var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki við Hvammsbraut í Hafnarfirði um klukkan hálf þrjú. Gluggi hafði verið spenntur upp og hugðist sá sem inn fór hafa á brott með sér tölvu af dýrari gerðinni. Ekki vildi þó betur til fyrir þjófinn en að tölvan hafði verið boltuð niður. Maðurinn komst undan tómhentur en hafði skorist við að reyna að losa tölvuna sem er eitthvað skemmd en enn á sínum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert