Keypti kynlíf af 14 ára dreng

Dómsalur.
Dómsalur. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann á sextugsaldri í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára gömlum dreng. Maðurinn greiddi drengnum pening fyrir að eiga við hann kynferðismök í nokkur skipti. Dómurinn var upp kveðinn í ágúst en ekki birtur á vef dómstólanna fyrr en nýverið.

Málið komst upp í lok mars 2011 þegar maðurinn hringdi í lögregluna og sagði drenginn hafa stolið af sér veski með öllum skilríkjum, greiðslukortum og 25-30 þúsund krónum í reiðufé. Hann hefði fengið hjá honum far og stolið veskinu úr jakka sem verið hafi í bifreiðinni. Auk þess að nefna nafn drengsins lýsti maðurinn honum þannig að hann væri 15-16 ára og örugglega samkynhneigður.

Lögregla fór að heimili drengsins þar sem hann játaði að hafa stolið veskinu. Sagðist hann hafa talað við manninn fyrr um kvöldið og boðið honum kynlíf gegn greiðslu. Hann hafi síðan ákveðið að stela veskinu og hlaupið í burtu með það.

Tekin var skýrsla af drengnum hjá lögreglu þar sem hann sagðist hafa sett auglýsingu inn á einkamálasíðu sökum þess að hann bráðvantaði peninga. Þar hafi maðurinn haft samband við hann. Drengurinn sagðist hafa stundað kynlíf með manninum nokkrum sinnum áður og einnig gegn greiðslu. Hafi hann fengið 20 þúsund krónur fyrir hvert skipti.

Byrjaði 11 ára í neyslu fíkniefna

Maðurinn neitaði sök hjá lögreglu og sagðist hafa tekið upp í bílinn fótgangandi ungling sem var að húkka sér far. Hann sagði sögu drengsins um greiðslur fyrir kynlíf tóma þvælu.

Við skýrslutöku síðar viðurkenndi maðurinn að hafa rætt við drenginn á einkamálasíðunni og einnig að „einhver“ drengur hefði komið á heimili hans áður í kynlífstilgangi. Hann sagðist hins vegar ekki muna hvort rætt hafi verið um greiðslu.

Fyrir dómi sagðist maðurinn svo hafa sagt ósatt hjá lögreglu. Hann hafi aldrei stundað kynlíf með börnum. Hann viðurkenndi þó að hafa verið í netsamskiptum við menn og stundað með ýmsum þeirra kynlíf. Hann kvaðst skammast sín fyrir kynhneigð sína og sagði ekki í lagi að leyndarmál hans sé opinbert því það sé hans einkamál í hans einkalífi.

Móðir drengsins kom einnig fyrir dóminn. Hún sagði hann hafa byrjað að nota vímuefni 11 ára og hún fyrst frétt af því að hann væri að selja sig eldri karlmönnum þegar hann var 13 ára. Þegar hún komst að því að hann væri í vændi hafi hún farið með það beint í félagsmálastjóra sveitarfélagsins. Kæra hafi verið lögð fram en ekkert komið út úr því.

Líðan drengsins skelfileg

Geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala sagði fyrir dómi að barn á þessum aldri ætti undir engum kringumstæðum að vera farið að lifa kynlífi, til þess sé ekki kominn neinn persónuþroski til þess að rúma þann tilfinningalega kraft sem vakni upp við svona atburði.

Sálfræðingur í Barnahúsi sagði drenginn hafa verið í mikilli neyslu og líðan hans hafi náttúrlega verið skelfileg. Hann sé þjakaður af kvíða- og streitueinkennum sem trufli hann á hverjum degi.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að þrátt fyrir að drengurinn hafi verið að leita leiða til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína með vændi verði ekki hjá því litið að hann hafi verið 14 ára gamall og sjálfsvirðing hans og sjálfsvitund skert vegna lífernis hans. Maðurinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart honum vegna aldursmunar og reynslu. Þótti hann því hafa brotið gróflega gegn drengnum og án þess að eiga sér málsbætur.

Refsingin þótti hæfileg tvö ár og sex mánuðir og var manninum einnig gert að greiða drengnum 800 þúsund krónur í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert