Segir ESB kaupa sér velvild

Fánaborg fyrir utan höfuðstöðvar ESB í Brussel.
Fánaborg fyrir utan höfuðstöðvar ESB í Brussel. Reuters

„Það er þekkt pólitísk aðferð að koma með fjármagn til að fá aðra til að fallast á vilja sinn. IPA-styrkirnir eru bein aðlögun og undirbúningur undir aðild að Evrópusambandinu,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, í tilefni af úttekt Morgunblaðsins á IPA-styrkjum 2012-13. Um milljarða er að tefla.

Eins og rakið er í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag, eru styrkirnir orðnir vel á þriðja milljarð. Jóni hugnast ekki að sveitarfélög skuli bera sig eftir þeim.

„ESB er að veifa þessum styrkjum sem beinum gulrótum fyrir sveitarfélög og stofnanir. Þeir hafa það hlutverk að innleiða hér innri gerð stofnana og stjórnsýslu sem fellur að ESB. Sveitarfélö og stofnanir fara að beina áherslum í þá átt sem er Evrópusambandinu þóknanlegt til að fá þessa styrki en það er ekki víst að það sé brýnasta verkefni sveitarfélaganna sjálfra.

Þetta fjármagn Evrópusambandsins er farið að stýra verkefnum og sveitarfélögum eftir því sem hentar aðild að ESB. Þótt verkefnin geti verið góð út af fyrir sig er með þessu verið að stýra forgangsröðun og hafa áhrif með pólitískum hætti og hraða aðlögun okkar að Evrópusambandinu."

Þvert á ályktanir VG

- Hvernig ríma IPA-styrkirnir við stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs?

„Þetta er algjörlega á móti stefnu VG sem hefur hafnað því að hafin verði innleiðing vegna aðlögunar að Evrópusambandinu. VG hefur enda ályktað gegn því að það sé tekið á móti þessum IPA-styrkjum sem ætlað er að undirbúa Ísland með formlegum hætti undir aðild. Fyrir flokk sem er andvígur aðild að Evrópusambandinu - og að það skyldi vera send inn umsókn - er fullkomulaga óaðgengilegt að hingað komi fjármagn til að hafa áhrif á þá atburðarás. Það er verið að spila á veikleika, alla vantar meira fé.

Það er þekkt pólitísk aðferð að koma með fjármagn til að fá aðra til að fallast á vilja sinn. IPA-styrkirnir eru bein aðlögun og undirbúningur undir aðild að Evrópusambandinu, nokkuð sem Ísland hefur enn ekki tekið ákvörðun um. Þannig að við erum að mínu mati að ganga miklu lengra í aðildarferlinu en þingsályktunartillagan um að sækja um aðild heimilaði,“ sagði Jón Bjarnason í símaviðtali frá Kanada en var með fulltrúum utanríkismálanefndar á slóðum Íslendinga í Winnipeg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert