Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fertuga konu í átta mánaða fangelsi en hún stal ítrekað vanillu- og kardimommudropum úr verslunum. Hún á að baki nokkurn sakarferil og rauf með brotum sínum skilorð. Var henni því gerð refsing í einu lagi.
Konan fór meðal annars inn í Hagkaup í Skeifunni í nóvember 2011 og stal þaðan 10 glösum af vanilludropum, svitaeyði, nærbuxum og brjóstahaldara. Í júní fór hún svo inn í sömu verslun og stal sex glösum af vanilludropum.
Í júlí sl. fór hún svo inn í Hagkaup í Smáralind og stal þaðan sjö glösum af vanillu- og kardimommudropum og í ágúst fór hún inn í sömu verslun og stal átta glösum af kardimommudropum.
Þá fór hún í júlí inn á lokaðan veitingastað í Kringlunni og stal þaðan þremur hvítvínsflöskum og nokkrum bjórum.
Konan var í október 2009 dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og fjársvik. Með dómi í nóvember 2010 var hún svo dæmd í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar og gripdeild. Þá var hún í mars 2011 dæmd í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnað og gripdeild.
Konunni var veitt reynslulausn í október 2011, en hún var að þessu sinni meðal annars sakfelld fyrir brot framið mánuði síðar.