Kennarar og starfsfólk Tálknafjarðarskóla eru ánægð með breyttan rekstur skólans og aðkomu Hjallastefnunnar sem þeim hefur fundist lyftistöng fyrir skólasamfélagið á Tálknafirði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þeim.
Yfirlýsing kennara og starfsfólks Tálknafjarðarskóla.
„Að gefnu tilefni viljum við bregðast við umfjöllun fjölmiðla varðandi rekstur Tálknafjarðarskóla þar sem enginn hefur haft samband við skólann sjálfan til að kanna afstöðu starfsfólks. Við undirrituð viljum koma á framfæri ánægju varðandi breyttan rekstur skólans og aðkomu Hjallastefnunnar sem okkur hefur fundist lyftistöng fyrir skólasamfélagið á Tálknafirði.
Með tilkomu Hjallastefnunnar er starfsháttum hagað á þann veg að kennarar eru með nemendum öllum stundum, kennslumagn er meira en aðalnámsskrá segir til um. Kennsla byggir á gildandi Aðalnámsskrám grunn- , leik- og tónlistarskóla, þar sem faglegt starf og umhyggja fyrir nemendum er höfð að leiðarljósi. Við erum stolt af því að fá að vera þátttakendur í því metnaðarfulla starfi og uppbyggingu sem unnið er innan veggja Tálknafjarðarskóla.“