Ungmenni sem voru í meðferð eru með minni menntun

Ásdís A. Arnalds félagsfræðingur.
Ásdís A. Arnalds félagsfræðingur.

Börn, sem dvöldust á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007 eru með minni menntun en jafnaldrar þeirra, hærra hlutfall þeirra eignast börn ung og einungis helmingur þeirra framfleytir sér með launatekjum. Þá hefur um þriðjungur þeirra verið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi.

Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningu í Háskola Íslands í dag á niðurstöðum rannsókna á afdrifum barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007. Ungmennin eru flest á aldursbilinu 20-25 ára.

Rannsóknin var gerð af þeim Elísabetu Karlsdóttur félagsráðgjafa og Ásdísi A. Arnalds félagsfræðingi fyrir hönd Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd og Barnaverndarstofu. Markmiðið var að afla upplýsinga um viðhorf barnanna til slíkar vistunar og afdrif þeirra eftir að meðferð lauk.

Minni menntun en meðal jafnaldra

Staða ungmennanna á vinnumarkaði er lakari en jafnaldra þeirra. Meirihluti ungmennanna, eða 73% eru með grunnskólapróf eða minni menntun að baki, 21% höfðu lokið framhaldsskóla- eða iðnnámi og 6% höfðu farið í háskólanám.

40% þeirra áttu börn og er það talsvert hærra hlutfall en meðal íslenskra ungmenna á sama aldri. Helmingur ungmennanna framfleytti sér með launatekjum, þriðjungur þeirra var á atvinnuleysisbótum og 13% voru á örorkubótum.

Að meðaltali stunduðu 80% ungmennanna nám eftir að meðferðinni lauk. Hlutfallið var heldur hærra meðal stúlkna, eða 89%, hlutfall pilta var 74%.

Um þriðjungur í fangelsi eða varðhaldi

30% ungmennanna hafa setið í fangelsi eða gæsluvarðhaldi eftir að meðferð lauk, 45% höfðu leitað aðstoðar vegna geðrænna vandamála og 45% höfðu farið í áfengis- eða fíkniefnameðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert