Hjörleifur L. Hilmarsson er eigandi vindils sem Winston Churchill reykti á Íslandi fyrir 71 ári. Vindillinn verður er til sölu og verður til sýnis þegar Churchill klúbburinn kemur saman á morgun.
Hjörleifur segir að vindillinn hafi alla tíð verið geymdur í vindlakassa í eigu fjölskyldunnar. Faðir hans, Hilmar Árnason, var mikill áhugamaður um Churchill en skjót viðbrögð tryggðu honum vindilinn þegar þjóðhöfðinginn var staddur í Alþingishúsinu 16. ágúst árið 1941.
„Afi minn, Árni Bjarnason, starfaði í Alþingishúsinu og pabbi var þar með honum öllum stundum. Pabbi og ljósmyndari sem þar var staddur höfðu augastað á vindlinum eftir að Churchill hafði drepið í honum. Pabbi hljóp til og náði vindlinum á undan ljósmyndaranum,“ segir Hjörleifur. „Ég er búinn að heyra söguna af þessu margoft,“ segir Hjörleifur.
Hann segir að faðir hans hafi alla tíð haft áhuga á því að safna hlutum. Aðspurður hvers vegna hann sé að selja vindilinn nú segir Hjörleifur „það hafa ekki allir sömu áhugamál.“ Hann á ekki von á því að fjölskyldan muni sakna vindilsins en býst fastlega við því að margir verði áhugasamir að eignast hann. „Það eru margir búnir að spyrja mig um hann,“ segir Hjörleifur.
Sjá einnig Vindill Churchills til sölu