Bjór verður malt með lagabreytingu

Víking dósin á verksmiðju Vífilfells verður líklega breytt í malt …
Víking dósin á verksmiðju Vífilfells verður líklega breytt í malt verði lagabreytingin samþykkt. Ljósmynd/Vikudagur.is

Útlit bjórdósarinnar sem prýðir verksmiðju Vífilfells á Akureyri verður ólöglegt, verði nýtt frumvarp til áfengislaga samþykkt. Dósin - eða baukurinn á máli heimamanna - hýsir stiga milli hæða og verður því ekki fjarlægð en ef af verður þarf væntanlega að breyta útliti hennar. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vikudagur.

Innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum. þar sem m.a. er lagt til að hverskonar auglýsingar og önnur viðskiptaboð til markaðssetningar á áfengi og einstökum áfengistegundum verði bönnuð.

„Bann þetta tekur einnig til vökva sem inniheldur minna en 2,25% af hreinum vínanda ef hann er settur á markað í umbúðum sem eru svo líkar umbúðum áfengra drykkja að hætta sé á ruglingi á áfengu vörunni og hinni óáfengu,“ segir í frumvarpinu. Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu og er stefnt að því að gera núgildandi bann við áfengisauglýsingum bæði skýrara og skilvirkara. 

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að auglýsingar á áfengi hafi lengi verið bannaðar, en með þessum breytingum sé lögð áhersla á að koma í veg fyrir að farið sé í kringum bannið með því að auglýsa óáfenga vöru með ríkri tilvísun til hinnar áfengu vöru. 

Stigahúsið við Vífilfell á Akureyri er myndskreytt líkt og Víking gylltur bjór og mun gildissvið hinna nýju laga líklega ná yfir þá markaðssetningu. Vikudagur hefur eftir Unnsteini Jónssyni hjá Vífilfelli að ef skipta þurfi um útlit á bauknum muni hann væntanlega verða að malti í staðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert